Viðskipti innlent

Segir hart tekist á um nýjan raforkusamning Norðuráls

Kristján Már Unnarsson skrifar
Landsvirkjun og Norðurál takast nú hart á um endurskoðun raforkusamnings. Forstjóri Landsvirkjunar upplýsti þetta á fundi með fréttamönnum í dag þar sem hann sakaði forsvarsmenn Norðuráls um að hafa truflað erfiðar kjaraviðræður í Straumsvík í því skyni að bæta samningsstöðu sína. 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar boðaði til fundarins einkum til að verða við óskum fréttamanna um viðbrögð vegna óvissu sem skapaðist um gildi raforkusamnings við Rio Tinto Alcan ef álverinu yrði lokað vegna kjaradeilu. Forstjórinn svaraði minnstu um það, bar við trúnaði, sagði þó að ríkar ábyrgðir væru fyrir að afhenda orku og að borga fyrir hana. 

Þess í stað varð helsta umræðuefnið viðræður við Norðurál um nýjan orkusamning og sagði Hörður að Landsvirkjun hefði fullan hug á að endursemja við Norðurál á hagstæðum kjörum. Þar væri þó hart tekist á. 

„Það virðist hins vegar vera í þessari deilu að stjórnendur Norðuráls telji sér hag af því að tengja þessa erfiðu deilu í Straumsvík inn í sínar samningaviðræður í því að reyna að bæta sína samningsstöðu. Ég tel það óheppilegt. Í fyrsta lagi bætir það ekki samningsstöðuna gagnvart okkur og í öðru lagi tel ég þetta trufla viðræðurnar í Straumsvík.“ 

Hörður ýjaði að því að þetta hefði gerst í gegnum bloggskrif á netinu og nefndi meðal annars að skrif Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsleiðtoga á Akranesi, hlytu að vera byggð á upplýsingum frá Norðuráli. „Þarna er verið að takast á um hagsmuni upp á tugi og hundruð milljarða. Við þær aðstæður er algerlega eðlilegt að það sé tekist fast á,“ sagði Hörður um samninga um orkuauðlindir þjóðarinnar. 

Getum hefur verið leitt að því að Landsvirkjun vilji fá 35 dollara fyrir megavattstund sem gæti verið 50 prósenta hækkun. Hörður vildi ekki staðfesta þær tölur, sagði þó að nýr samningur hlyti að þýða umtalsverða hækkun.


Tengdar fréttir

Alcan sagt vilja losna við raforkukaup

Fundi fulltrúa starfsmanna álversins í Straumsvík með fulltrúum fyrirtækisins hjá ríkissáttasemjara var slitið í gær án árangurs. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar. Byrjað verður að loka álverinu að óbreyttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×