Viðskipti innlent

Telur Rio Tinto tilbúið að stanga Landsvirkjun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hótun um lokun álversins í Straumsvík beinist í raun að Landsvirkjun til að þrýsta á um lækkun orkuverðs. Þetta er mat markaðsráðgjafa sem unnið hefur fyrir álfyrirtæki og hann telur að stjórnendur Rio Tinto Alcan séu tilbúnir að standa við hótunina.

Meðan sumir segja að hótunin um að loka álverinu hafi verið blöff telur ráðgjafi sem unnið hefur fyrir Norðurál, Viðar Garðarsson viðskiptafræðingur, að full ástæða sé til að taka mark á henni. Stórfyrirtæki eins og þetta setji ekki fram slíka hótun nema þau séu tilbúin að fylgja henni eftir.

Grunnurinn sé þungur rekstur. Rekstrarskilyrði hafi versnað verulega eftir að Rio Tinto Alcan gerði nýjan orkusamning árið 2010. Undir þeim aðstæðum geti fyrirtækið ekki sætt sig við að greiða 30 prósent hærra verð heldur en systurfyrirtæki þess greiða í Noregi og Kanada.

Viðar Garðarsson, viðskiptafræðingur og markaðsráðgjafi.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Launasparnaður sem tekist var á um sé smáaurar miðað við stóru tölurnar sem liggi í orkusamningi við Landsvirkjun. Orkan hafi langmestu áhrifin þegar þurfi að spara.

„Þannig að ég held að lykillinn í deilunni liggi ekki hjá Verkalýðsfélaginu Hlíf heldur liggur hann hjá Landsvirkjun.“

Viðar segir að Rio Tinto sé í raun að þrýsta á Landsvirkjun. Þar sé raunveruleg deila undir niðri.

Hann telur að ráðamenn Rio Tinto séu tilbúnir að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort kaupskylda á raforku haldi lokist álverið vegna vinnudeilu. Þeir hafi þegar metið áhættuna af slíkum málaferlum. Stjórnendur Rio Tinto Alcan séu tilbúnir að taka þann slag.

„Í mínum huga er það engin spurning að þeir voru að sýna hornin og eru tilbúnir að stanga, ef á þarf að halda.“


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


×