Innlent

Á einhverjar krónur til að lifa af mánuðinn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Öryrkjar segja lífeyrisgreiðslur sem þeir fá ekki duga til að lifa af. Erfitt sé að ná endum saman alla mánuði en sérstaklega reyni á í desember. Þeir vilja að lífeyrir þeirra hækki og að kjararáð taki ákvarðanir um hækkanir í stað stjórnvalda.

Kjarahópur Öryrkjabandalags Íslands mætti fyrir utan Alþingi í morgun til að ræða við þingmenn og skora á þá að hækka lífeyri þeira afturvirkt. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að greiðslur til eldri borgara og öryrkja hækki um tæplega 10% frá 1. janúar 2016. Þetta finnst kjarahópi Öryrkjabandalagsins ekki nóg og vilja að hækkanirnar verði afturvirkar. Þá vill hópurinn að kjararáð úrskurði framvegis um kjör þeirra en ekki stjórnvöld.

Aðalbjörg er ein þeirra sem mætti fyrir utan Alþingi í dag. Hún segir lífeyrisgreiðslurnar sem hún fær ekki duga til að lifa af. Hún fær 210 þúsund krónur útborgað á mánuði. Hún segir megnið af því fara í húsnæði, mat og lyf. „Ég á einhverjar nokkrar krónur eftir til þess að lifa af mánuðinn. Það er ekki gert ráð fyrir því að við sem erum á örorku, lendum í veikindum eða slysum, eigum fjölskyldu og geta glatt til dæmis á jólum, “ segir Aðalbjörg Rut Pétursdóttir. Hún segir erfitt að láta enda ná saman alla mánuði. „En það er náttúrulega erfiðast um jólin, fyrir sérstaklega fjölskyldufólk, “ segir Aðalbjörg.

Sömu sögu segir Andri sem fær 180 þúsund krónur útborgað í lífeyri á mánuði. „Ég er að vinna 20% og það er það sem að eiginlega svona hjálpar mér sem mest. Eins og ég segi, ef ég væri ekki að vinna þá gæti ég ekki lifað á þessum pening sko, það er alveg klárt mál, “ segir Andri Valgeirsson.

Á meðan hópurinn stóð fyrir utan Alþingi spurði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, forsætisráðherra hvers vegna eldri borgarar og öryrkjar fái ekki líkt og aðrir hópar í samfélaginu afturvirkar hækkanir frá síðasta vori. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram slíka tillögu á Alþingi. „Þegar að við lítum á heildaráhrifin á síðustu misserum og til framtíðar þá má gera ráð fyrir því að kjör þessara hópa muni batna jafn mikið og kjör annarra hópa í samfélaginu. Það er álitamál hvort, hvaða dagsetningar eigi að miða við og þá hvaða hækkanir til þess að ná þessum heildaráhrifum, “ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í ræðustól á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×