Handbolti

„Erum með tveggja metra durga sem Haukar eru ekki vanir að glíma við“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnór Atlason mætir á Ásvelli á morgun.
Arnór Atlason mætir á Ásvelli á morgun. vísir
„Við eigum bara von á þrælerfiðum leik gegn Haukum,“ segir Arnór Atlason í samtali við Guðjón Guðmundsson á Ásvöllum í dag.

Arnór leikur með franska liðinu Saint-Raphaël, sem mætir Haukum í þriðju umferð EHF-keppninnar í handknattleik á morgun. Liðið er í öðru sæti frönsku úrvalsdeildarinnar sem stendur.

„Við erum bara nokkuð ungur klúbbur og þannig séð ekki mikil reynsla í Evrópu-keppni hjá okkur, ekkert í líkingu við þá reynslu sem Haukar hafa í keppni sem þessari. Markmið okkar er vissulega að komast í riðlakeppnina.“

Hafa undirbúið sig vel

Arnór segir að liðið hafi undirbúið sig vel og skoða andstæðinginn.

„Við eigum eftir að fara betur yfir þetta en teljum okkur nokkuð vel undirbúna. Fyrirfram erum við að sjálfsögðu sigurstranglegri, og þá sérstaklega útaf stærð leikmanna liðsins. Við erum með margar tveggja metra durga sem Haukar eru ekki vanir að glíma við.“

Arnóri hefur gengið vel með liðinu að undanförnu.

„Ég hef náð að spila mikið og vonandi heldur það áfram fram í janúar,“ segir Arnór sem verður ekkert endilega áfram hjá Saint-Raphaël. „Ég hef ekki fundið mér annan klúbb og það er ekkert útilokað í þessu. Ég hef engar áhyggjur samt, ég finn eitthvað.“

Verður rosalega erfitt

Haukar hafa farið á kostum í Olíd-deild karla á tímabilinu og er liðið í efsta sæti deildarinnar.

„Þetta verður rosalega erfitt, enda eru þeir með hörkulið,“ segir Heimir Óli Heimisson, leikmaður Hauka.

„Við förum engu að síður bjartsýnir inn í þetta og stefnum á sigur. Við höfum verið að spila fantavörn í deildinni hérna heima en við vitum að við þurfum aðeins að breyta vörninni okkar til að verjast gegn þeim. Þetta eru stærri skyttur og stærri menn.“

„Þarna ertu kominn í annan þyngdarflokk, annan gæðaflokk og allt menn sem hafa margra ára reynslu að baki,“ segir Janus Daði Smárason, leikmaður Hauka.

„Við mætum samt kokhraustir til leiks og ætlum okkur sigur. Við þurfum bara að hafa virkilega fyrir þessu og breyta áherslum hér og þar.“ 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×