Innlent

Vill opna umræðuna um fæðingarþunglyndi: „Það að segja frá sinni reynslu er ekki merki um veikleika“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ingólfur og Sigríður Etna ásamt dóttur sinni Ingibjörgu Etnu.
Ingólfur og Sigríður Etna ásamt dóttur sinni Ingibjörgu Etnu. mynd/ingólfur
Fyrir ári síðan eignuðust Ingólfur Ágústsson og kona hans, Sigríður Etna Marinósdóttir, sitt fyrsta barn, stúlkuna Ingibjörgu Etnu.

Ingólfur birti í gær færslu á Facebook-sinni þar sem hann deilir reynslu þeirra hjóna af fæðingarþunglyndi sem kona hans glímdi við en í færslunni segir hann að hann telji að „eitt það versta í heiminum sé að horfa upp á ástvin sinn í kveljast.“

Sigríður Etna er í hópi þeirra 25 prósent kvenna sem fá fæðingarþunglyndi í kjölfar fæðingu fyrsta barns. Í samtali við Vísi segir Ingólfur að hann hafi deilt sögu þeirra í von um að hjálpa fjölskyldum sem hugsanlega glíma við sama vanda.

„Mér finnst þetta ekki vera tabú en oft virðist það vera erfitt, sérstaklega á meðal karlmanna, að tala um persónulega hluti og andlega vanlíðan. Mig langar því til að opna þessa umræðu og að þetta sé ekki tabú.“

Segir það hans mistök að láta ástandið viðgangast of lengi

Í færslunni lýsir Ingólfur því að bæði meðgangan og fæðingin hafi verið erfið og tekið mikið á konu hans. Þá fékk dóttir þeirra sýkingu í nýrað aðeins 10 daga gömul og var mikið veik sem var einnig erfið reynsla.

„Þegar Ingibjörg var svo 10 vikna fór brjóstagjöfin að ganga illa og fór stelpan okkar m.a. í 14 daga brjóstagjafaverkfall.

Það er ömurlegt að fylgjast með jákvæðri og hamingjusamri konu umbreytast í óörugga og ofurkvíðna manneskju sem er full af ranghugmyndum. Hún var með skrítnar þráhyggjur, vildi oft ekki hitta annað fólk eða fá fólk í heimsókn, gat lítið sofið og þótti oft á tíðum ekki vænt um sitt eigið barn. Það er ömurlegt að þurfa að taka þá ákvörðun að fara í vinnuna þegar konan manns liggur grátandi í jörðinni, að reyna að telja manni trú um að hún geti ekki verið ein með barnið þitt. Það er ömurlegt að vera í vinnunni með áhyggjur af konunni þinni og barni.“

Ingólfur segir að hans mistök hafi verið „að láta þetta ástand viðgangast of lengi og leita ekki eftir viðeigandi hjálp fyrir konuna mína fyrr. Hún hefði ekki þurft að þjást svona mikið og lengi. Það tók mig langan tíma að biðja fjölskyldu mína um hjálp. Ég skammaðist mín aldrei fyrir ástandið heima fyrir, en ég var einhvern veginn hræddur við að tjá mig vegna þess að ég var smeykur um að fólk myndi einhvern veginn ekki skilja mig. Sem betur fer er ég mjög yfirvegaður og jarðbundinn maður. Þannig að þegar konunni minni fór að líða betur þá fór sjálfum mér að líða betur. En það þarf ekki endilega að vera þannig hjá öllum öðrum karlmönnum og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því. Er einhver hjálp fyrir þá?“

Ingólfur ásamt Ingibjörgu Etnu.mynd/ingólfur
Hefði viljað fá bækling um fæðingarþunglyndi í mæðraeftirlitinu

Þá segir Ingólfur að honum hafi þótt lítið hugað að karlmönnunum í öllu ferlinu eftir fæðinguna en sjálfur upplifði hann líka að vera þungur í skapi enda leið honum mjög illa yfir að geta ekki hjálpað eiginkonu sinni.

„Kannski hefur það samt verið metið þannig að ég var heilsteyptur og það sást ekkert á manni en svo heima fyrir var maður alveg niðurbrotinn,“ segir Ingólfur.

Þegar konan hans fór í fyrsta sinn til sálfræðings í byrjun september fékk hann í fyrsta skipti í hendurnar bækling um fæðingarþunglyndi. Þann bækling hefði hann viljað fá í mæðraeftirlitinu þar sem hann telur að hann hefði þá áttað sig mun fyrr á alvarleika málsins:

„Konur í dag virðast eiga aðeins auðveldara með að tjá sig um fæðingarþunglyndi heldur en áður fyrr. Það er frábært og ekkert nema jákvætt. En rödd karlanna þarf líka að heyrast, þetta á ekki að vera neitt feimnismál fyrir þá. Það að segja frá sinni reynslu er ekki merki um veikleika.

Ég vona að mín mistök séu öðrum víti til varnaðar. Karlmenn – hugsið vel um konurnar ykkar bæði á meðgöngu og eftir fæðingu. Gerið ykkur grein fyrir því hvað þær eru að fórna miklu. Ekki taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Konur eru svo miklar hetjur og alveg klárlega sterkara kynið! Ef þið eigið konu sem er ólétt, kynnið ykkur þá vel einkenni fæðingarþunglyndis og hvað sé hægt að gera.“

Facebook-færslu Ingólfs má sjá í heild sinni hér að neðan.

Ég hef ekki verið þekktur fyrir að vera maður margra orða en núna finnst mér ég ekki geta setið á mér og langar að deila...

Posted by Ingólfur Agustsson on Saturday, 21 November 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×