Skoðun

Brandarakerling gærdagsins

Jón Ásgeir Kalmansson skrifar
Fanney Birna Jónsdóttir blaðamaður skrifar pistil í Fréttablaðið þann 3. nóvember síðastliðinn undir fyrirsögninni „Brandarakallar morgundagsins“. Þar má á henni skilja að málflutningur þeirra sem setja sig upp á móti áfengisfrumvarpinu svokallaða verði þeim til ævarandi háðungar í framtíðinni.

Í framtíð Fanneyjar Birnu mun nefnilega enginn skilja í því hvernig við getum sætt okkur við núverandi „forræðishyggju“ í áfengismálum. Hún rennir stoðum undir þessa sýn með því meðal annars að tala um „Mýtuna um að aðgengi auki áganginn og þar með vandræðin“ sem fylgja áfengisneyslu. Þessi staðhæfing er ósönnuð, segir Fanney Birna, „og margir sem setja mikinn fyrirvara við þá staðhæfingu“.

Ég get varla verið einn um að finnast þetta vera undarlega veiklulegur og vanhugsaður málflutningur til stuðnings áfengisfrumvarpinu. Annars vegar er fólki sagt að það muni verða álitið hallærislegt ef það leggst gegn því og hins vegar eru vísindaleg gögn og niðurstöður sem að því lúta afgreidd með orðunum „mýta“, „ósannað“ og „margir setja mikinn fyrirvara“. Höfum í huga að orðið mýta þýðir ekki annað í þessu samhengi en uppspuni, hugarburður eða skröksaga. Slík framsetning minnir óþægilega á málflutning þeirra sem afneita loftslagsbreytingum, svo dæmi sé nefnt.

Í skýrslu WHO frá árinu 2014 kemur fram að takmarkanir á aðgengi að áfengi séu ásamt skattlagningu og banni við auglýsingum árangursríkustu og ódýrustu meðulin til að vinna gegn skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Hvort ætli ráðleggingar WHO byggist á „mýtu“ eða á heildstæðu mati á helstu rannsóknum sem gerðar hafa verið í heiminum á þessu sviði? Og hvað segir það um áfengisfrumvarpið og málflutning Fanneyjar Birnu því til stuðnings að rök hennar skuli hverfast um haldlausa frasa af þessu tagi, auk þess að höfða til frumstæðs og þaggandi ótta fólks við að verða sér að athlægi?




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×