Skoðun

Takk Trudeau!

Soffía Sigurgeirsdóttir skrifar


Af því að árið er 2015! Svaraði nýskipaður forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, spurningu blaðamanns þegar hann var spurður út í jafnt kynjahlutfall nýrrar ríkisstjórnar. Já, málið er svona einfalt, þetta er spurning um ákvörðun til að stuðla að auknu jafnrétti. Breytingar í samfélaginu byggjast á viðhorfsbreytingum sem verða að veruleika þegar einstaklingar eins og Trudeau taka ákvörðun að breyta ekki út frá venju, þ.e. að karl fái annan karl með sér í lið, af því að þeir eru vanir því, en vá hvað það er ekki 2015!

Með fleiri fyrirmyndum eins og Trudeau rífum við okkur úr fjötrum vanans. Með þátttöku fleiri karlmanna gerum við það hraðar. Við konur erum nefnilega orðnar frekar óþolinmóðar eftir aldarlanga baráttu. Þingkona sagði nýlega að hún vildi gjarnan öskra á feðraveldið til að kalla á breytingar, ég öskra líka oft á það og það má! Samtaka getum við það, karlmenn, konur, stjórnvöld og atvinnulífið, það er í okkar höndum að jafna hlut kynjanna.

UN Women hefur verið í fararbroddi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á heimsvísu. Herferð UN Women, HeforShe, er liður í því að fá karlmenn til að taka þátt í baráttunni um allan heim. Jafnréttissáttmáli UN Women og UN Global Compact var settur á laggirnar til að auka þátttöku kvenna á atvinnumarkaði og stuðla að efnahagslegri valdeflingu kvenna í heiminum.

Alls staðar hallar á konur, meira að segja hérlendis í „mekka“ jafnréttis. Samkvæmt nýlegri rannsókn Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur og Þorgerðar Einarsdóttur, prófessora við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, eru inn­an við einn af hverj­um tíu forstjórum í stærstu fyr­ir­tækj­um lands­ins konur. Í rannsókninni kemur jafnframt fram að karl­ar í áhrifa­stöðum inn­an þessara fyr­ir­tækja telja að ástandið sé svo vegna þess að kon­ur ráði ekki við álagið eða hafi ekki tíma vegna heim­il­is­starfa. Hins vegar telja kon­ur að ástandið skýrist af óformlegum ráðningum og vegna vina­tengsla karlkyns stjórnenda.

Samkvæmt nýlegri kjarakönnun PWC þá eru karlmenn með 30% hærri laun en konur við útskrift úr háskóla. Jafnframt er óútskýrður launamunur kynjanna 7 - 18%. Þessi staða er ekki einungis í einkageiranum heldur á einnig við um opinbera geirann, Hæstarétt, Alþingi og í ráðherra­embætt­um. Það er ánægjulegt að horfa á breytingar eiga sér stað og margt hefur breyst til hins betra á síðustu árum. UN Women, Festa og Samtök atvinnulífsins standa fyrir morgunverðarfundi um Jafnréttissáttmála UN Women og Global Compact þann 12. nóvember næstkomandi. Með öflugum þátttakendum úr atvinnulífinu sem hafa skuldbundið sig til að stuðla að auknu jafnrétti munum við þokast sem samfélag í rétta átt.








Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×