Skoðun

Áskoranir í öryggismálum

Auðunn Atlason skrifar
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, hefur verið áberandi síðustu misserin og það kemur því miður ekki til af góðu. Í fyrsta skipti frá lokum síðari heimsstyrjaldar var landamærum í Evrópu breytt með hervaldi þegar Rússland innlimaði Krímskaga og vopnuð átök brutust út í austurhluta Úkraínu. ÖSE hefur reynst mikilvægur vettvangur til að koma á friði.

Í fyrsta lagi er ÖSE alþjóðastofnun þar sem ekki er bara verið að tala um heldur við Rússland. Rússland, Úkraína og 55 önnur ríki, þ. á m. Ísland, eru aðilar. ÖSE setti strax á fót eftirlitsverkefni og nú starfa í Úkraínu um 600 alþjóðlegir eftirlitsmenn sem vakta vopnahléið og liðka fyrir samningum. Loks hefur hugmyndafræði ÖSE reynst notadrjúg þ.e. að þegar í harðbakkann slær þá er aldrei mikilvægara að hið pólitíska samtal rofni ekki.

Þetta grundvallarstef á sér langa sögu. Upphafið má rekja til ársins 1975 þegar ríki austan og vestan járntjaldsins komu saman til fundar í fyrsta skipti. Í kalda stríðinu miðju náðist samkomulag um grundvallarprinsipp í samskiptum ríkja. Stofnsáttmáli ÖSE kveður þannig á um friðhelgi landamæra, friðsamlega lausn deilumála og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti ríkja. Engin smá mál ef höfð er í huga saga aldanna og smærri þjóðum lífsnauðsyn. Starf ÖSE hefur raunar fallið vel að stefnu Íslands sem herlausrar þjóðar því áherslan er á lýðræði, mannréttindi og réttarríkið til að tryggja frið og öryggi.

Nú þegar ÖSE-samstarfið fagnar 40 ára afmæli eru áskoranirnar tvíþættar. Annars vegar eru hernaðarleg öryggismál í uppnámi vegna átakanna í Úkraínu, traustið er brothætt. Hins vegar hefur virðing fyrir grundvallarmannréttindum farið þverrandi. Víða eru dæmi um að tjáningarfrelsi sé skert, fjölmiðlafólk handtekið og lýðræði skrumskælt. Þetta tvennt tengist af því að vanvirðing mannréttinda er oft og tíðum undanfari ofbeldis. Fimmtudaginn 12. nóvember kl. 18 stendur ÖSE fyrir kaffifundi á Hvalasafninu í Reykjavík til að ræða þessi mál. Daginn eftir verður málþing í Háskóla Íslands. Hvort tveggja má finna á Facebook.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×