Skoðun

Northern Future Forum

Arnar Þór Magnússon skrifar
Fyrir stuttu komu saman í Reykjavík forsætisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands á ráðstefnuna Northern Future Forum (NFF) í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Fyrsta ráðstefnan undir þessu heiti var haldin í London 2011 að frumkvæði David Cameron, forsætisráðherra Breta, og þær hafa síðan verið haldnar í Stokkhólmi, Ríga og Helsinki. Það sem gerir NFF-ráðstefnuna óvenjulega er að þar setjast ráðherrarnir niður, tveir til þrír saman, í litlum málstofum með sérfræðingum frá löndunum og ræða framtíðina með hliðsjón af tilteknum þemum. Undirliggjandi markmið ráðstefnunnar er að greina hvaða leiðir eru mögulegar til auka vöxt og viðgang viðkomandi samfélaga og skoða hvað við getum lært hvert af öðru. Ráðherrarnir hlusta, taka þátt í umræðum og fara heim með hugmyndir um leiðir til samfélagsumbóta. Þau samskipti sem fram fara á NFF og sú jákvæða nálgun sem notuð er til þess að horfa til framtíðarinnar gerir ráðstefnuna að einstökum viðburði.

Í ár var horft til tveggja þátta, annars vegar vaxtar og viðgangs skapandi greina og hins vegar nýsköpunar í opinberum rekstri. Áður hafa á fundunum verið rædd málefni eins og hvernig menntakerfið styður við nýsköpun, græna hagkerfið og hvernig hægt er að fjölga konum í stjórnunarstöðum. Allt málefni sem skipta löndin miklu og í raun heiminn allan.

Á ráðstefnunni í Reykjavík var meðal annars rætt hvernig menntakerfi gætu ýtt undir skapandi hugsun, hvernig hönnun getur nýst á ýmsum sviðum, með hvaða hætti hægt er að standa að nýsköpun í opinberum rekstri, t.d. í flóknum kerfum, svo sem heilbrigðiskerfum og skattkerfum, og hvernig hægt er að nota tækninýjungar til að hjálpa til við skipulag, þróun og rekstur borgarsamfélaga. Ásamt forsætisráðherrunum tók fjöldi sérfræðinga þátt í ráðstefnunni, þar af ríflega 40 frá fjölbreyttum fyrirtækjum og stofnunum. Um var að ræða bæði forstjóra stórra fyrirtækja, svo sem dönsku risanna Lego og ATP, en einnig forsvarsmenn minni fyrirtækja og sprotafyrirtækja og fulltrúa frá opinberum stofnunum.

Á vefnum https://nff2015.is/ eru allar frekari upplýsingar um ráðstefnuna. Þar má nálgast umfjöllun um sérfræðingana, greinar um þemun, samantekt af málstofum o.fl. Áformað er að næsta ráðstefna verði haldinn í Noregi að ári.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×