Skoðun

Lyfjaárásir – allir til varna

Eyþór Víðisson skrifar
Nýlegar fréttir þar sem grunur leikur á að konum sé byrluð ólyfjan á skemmtistöðum í Reykjavík er ógeðfelld lesning. Þessi brot eru alltof algeng hér á landi. Öllum má vera ljóst að slíkur verknaður, að setja deyfandi lyf í drykk hjá einstaklingi, er partur af tilraun til nauðgunar.

Það er kristaltært að ábyrgð á nauðgun ber aðeins sá sem hana fremur. Allt tal um gáleysislegan klæðnað kvenna eða óhóflega áfengisdrykkju fórnarlamba er argasta þvæla enda er slíkt ofbeldi aldrei afsakanlegt.

En hvað er til ráða? Öryggismálum má skipta í þrennt; vitund, varnir og viðbrögð. 1) gera þá sem eru í hættu meðvitaða um hættuna. 2) setja upp varnir til að draga úr líkum á að hættan komi upp og 3) innleiða viðbrögð til að minnka hugsanlega skaða.

Í einni stöðuuppfærslu þar sem fórnarlamb tjáir sig, segir: „Þú …hefur …passað vel uppá að byrla okkur öllum til þess að það gæti nú engin okkar komið þeirri okkar sem þú ætlaðir að nauðga til aðstoðar þegar við myndum lamast…“

Í hvernig samfélagi búum við þar sem brotamaður getur gengið út frá því vísu að ósjálfbjarga manneskju verði ekki hjálpað af ókunnugum? Getur almenningur, með yfirvöld í fararbroddi, ekki tekið upp þá vitund að áberandi drukkið fólk eigi ekki að vera eitt á ferli, heldur að það skuli aðstoðað? Nú er það svo að dyraverðir þurfa vottun yfirvalda. Það eru því hæg heimatökin þar að auka vitund þeirra hvað þessa ógn varðar.

Spurning um hugarfar

Ef skemmtistaður leggur áherslu á að stöðva áberandi ölvaðan einstakling á leið inn, af hverju má þá ekki stöðva áberandi ölvaðan eða lyfjaðan einstakling sem er á leið út; veit hann eða hún hvert skuli haldið? Þykir viðkomandi hæfur til að koma sér heilum heim? Einnig má þá spyrja þann sem er að aðstoða þann ölvaða (hugsanlegur gerandi) um skilríki, s.s. taka mynd af þeim þannig að ef til kæru kemur í kjölfar lyfjanauðgunar, þá eru upplýsingar um geranda til.

Hvað með þá sem eru edrú inni á þessum stöðum? Barþjónar, dyraverðir og aðrir starfsmenn? Af hverju er meðvitundarleysi eða ofurölvun ekki gerð að stórmáli inni á skemmtistöðum? Þetta er spurning um hugarfar.

Hvaða staðir eru þetta? Lögreglan hlýtur að búa yfir þeim upplýsingum út frá útköllum og kærum. Hvað ef tilraun til lyfjaárásar á skemmtistað hefur áhrif á endurnýjun vínveitingaleyfis? Hvað ef þessir staðir eru opinberaðir, taka þeir þá kannski til hjá sér? Þjálfa starfsmenn sína betur, leita þeir frekar tæknilegra lausna, s.s. að bjóða upp á „örugg glös“ eða ísmola sem greina lyf?

Af hverju búum við ekki til umhverfi þar sem meðvitundarleysi á almannafæri er tekið meira alvarlega? Við þurfum að auka umræðuna, upplýsa um hugsanlegar afleiðingar og fjölga Samverjum. Ég veit að það er hægt að draga úr fjölda lyfjaárása, sem og draga úr líkum á að þær heppnist. Þetta er spurning um vilja þeirra sem ráða.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×