Skoðun

Er þetta breyting til hins betra?

Elfa Dís Hlynsdóttir skrifar
Næstkomandi vor mun ég útskrifast úr grunnskóla og stefni á að fara í framhaldsskóla. Þar sem grunnskólinn hefur tekið upp nýtt námsmatskerfi hef ég áhyggjur af stöðu minni í vor og því hvernig framhaldsskólinn muni meta mig. Í fyrstu var ég efins um nýja námsmatið og hafði ekki mikla trú á því. En eftir að ég fékk kynningu á því tók ég það í sátt. Nú, þegar ég hef fengið nokkrar einkunnir í skólanum sé ég marga galla við kerfið en einnig kosti.

Einn stærsti kosturinn við þessa breytingu er, að í nýja matinu er verið að meta hæfni þína í lok ársins en ekki aðeins í byrjun árs. Þá færðu tækifæri á að bæta þig og sýna fram á skilning þinn á efninu sem var ekki hægt áður. Þá gildir í rauninni ekki hæfnin sem þú hafðir í byrjun skólaársins, heldur sú sem þú hefur í lok skólaársins.

Hins vegar er ég hrædd um að matið verði of huglægt, þ.e. að einkunnin muni byggjast of mikið á því hver hugur kennara er til þín. Að sjálfsögðu eiga kennarar ekki að gera upp á milli nemenda sinna, en ég velti því fyrir mér hvernig hægt verði að komast hjá því?

Mismunandi túlkun

Mín tilfinning er sú að kennarar hafi ekki fengið nægar upplýsingar um hvernig á að framkvæma þetta mat á nemendum. Þegar ég og vinir mínir, sem eru í öðrum skólum en ég, berum saman matið í skólunum kemur í ljós hve mismunandi kennarar túlka fyrirmælin sem þeim hefur verið gefin og ekki bara milli skóla heldur einnig milli kennara. Það er eins og að matinu hafi verið hent í kennara og að þeir þurfa sjálfir að finna sína eigin leið til þess að framkvæma það. Hvernig er þá hægt að treysta á að matið verði samræmt meðal skóla?

Ég er þó ánægð með það að lögð verði meiri áhersla á hvernig nemendur læra í kennslustundum en gert var áður. Virkni þín í tímum og þátttaka í umræðum vegur meira en áður. Það dugir ekki lengur að læra bara rétt fyrir próf.

Fyrir stuttu tók ég stærðfræðipróf og var með eina villu á því prófi. Ég fékk einkunnina B. Ég velti því fyrir mér hvað nemandi þarf að gera til þess að fá einkunnina A. Er það að svara öllu rétt á prófinu? Eða að ná öllum markmiðum sem sett voru fyrir prófið? Samkvæmt námsmatsstofnun er einkunnin A framúrskarandi hæfni. Ég skilgreini hugtakið framúrskarandi sem einhver sem skarar fram úr og sýnir fram á meira en krafist er af honum. Hvernig er þá hægt að fá A á prófi? Hvernig sýnir maður fram á að maður geti meira en prófið geri ráð fyrir, á prófi?

Einnig velti ég því fyrir mér hvernig einkunnir okkar á samræmdu prófunum voru fengnar. Einn vinur minn fékk raðeinkunnina 36 en annar 79. Báðir fengu samt einkunnina B. Hver er hvatningin í að standa sig vel þegar bilið er svona breitt á raðeinkunn en lokaniðurstaðan sú sama?








Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×