Skoðun

Stjórnvöld geta hunsað eitt bréf – þau hunsa ekki milljónir bréfa!

Bryndís Bjarnadóttir skrifar
Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast er erfitt að líta undan.

Á hverju ári í kringum 10. desember setja hundruð þúsunda einstaklinga, frá 150 löndum og landsvæðum, nafn sitt á milljónir bréfa og korta til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og þrýsta á umbætur. Fjöldinn allur skrifar einnig stuðningskveðjur til þolenda mannréttindabrota og veita þeim þannig styrk og vissu um að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim.

Bréfin bera árangur. Bréfin bjarga lífi

Í rúm 50 ár hefur Amnesty International barist gegn mannréttindabrotum með pennann að vopni og á hverju ári eru samviskufangar leystir úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolendur pyndinga sjá réttlætinu fullnægt, fangar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri löggjöf er breytt. Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta ykkar og aðgerða.

Gott dæmi um raunverulega breytingu á lífi þolanda mannréttindabrots er saga Moses Akatugba, ungs manns frá Nígeríu sem var pyndaður grimmilega og dæmdur til dauða með hengingu aðeins 16 ára gamall fyrir það eitt að stela þremur farsímum. Á síðasta ári þrýstu rúmlega 300.000 manns, í bréfamaraþoni samtakanna, á fylkisstjórann á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses og í maí 2015 lét fylkisstjórinn undan. Moses er nú frjáls maður.

Hann lét eftirfarandi orð falla þegar ljóst var að hann yrði náðaður: „Ég er djúpt snortinn. Ég þakka Amnesty International og aðgerðasinnum samtakanna fyrir stórkostlegan stuðning sem gerðu mig að sigurvegara í þessum aðstæðum. Félagar Amnesty International og aðgerðasinnar eru hetjurnar mínar. Ég fullvissa þá um að þessi ótrúlegi stuðningur sem þeir hafa sýnt mér er ekki fyrir borð borinn...Ég heiti því að gerast aðgerðasinni sjálfur og berjast fyrir aðra. Viltu ganga til liðs við mig? Viltu berjast fyrir frelsi annarra sem eru ranglega fangelsaðir með þátttöku í bréfamaraþoni Amnesty í ár?“

Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja í baráttunni fyrir frelsi Moses. Send voru rúmlega 16.000 áköll frá Íslandi þar sem þess var krafist að Moses yrði náðaður.

Hér er aðeins eitt dæmi af mörgum um hvernig samtakamáttur fjöldans hefur breytt lífi fólks á undanförnum árum.

Fleiri þurfa nú hjálpar við. Víða um heim er frelsi fólks ógnað. Aðgerðasinnar eru fangelsaðir og jafnvel dæmdir til dauða fyrir það eitt að tjá skoðun sína. Mótmælendur eru pyndaðir og ranglega fangelsaðir. Ungar stúlkur eru þvingaðar í hjónabönd og fá engu ráðið um líf sitt og líkama. Bréf þín, undirskriftir, sms-aðgerðir og netáköll, setja þrýsting á stjórnvöld að bregðast tafarlaust við og snúa ranglæti í réttlæti.

Íslandsdeildin skorar á fólk að láta ekki sitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi. Á bréfamaraþoni samtakanna er hægt bregðast við vegna 12 áríðandi mála sem þurfa á athygli landans að halda. Meðal þeirra er mál Albert Woodfox sem hefur setið í fangelsi í Louisiana í Bandaríkjunum í 43 ár, þar af 40 ár í einangrun. Engar áþreifanlegar sannanir tengja Woodfox við glæpinn sem hann er ákærður fyrir.

Búrkína Fasó er einnig í brennidepli bréfamaraþonsins í ár en þar eru þúsundir ungra stúlkna þvingaðar í hjónaband á hverju ári. Í El Salvador er einnig brotið gróflega á mannréttindum kvenna og stúlkna þar sem blátt bann ríkir við fóstureyðingum í landinu. Mál Theodora del Carmen verður sérstaklega tekið fyrir en hún fæddi andvana barn árið 2007 og var í kjölfarið handtekin og dæmd í 30 ára fangelsi fyrir morð að yfirlögðu ráði. Allir þessir þolendur mannréttindabrota þurfa sárlega á aðgerðum þínum að halda.

Bréfamaraþonið fer fram dagana 4. til 18. desember. Það hefur aldrei verið einfaldara að taka þátt. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða á öllum þeim stöðum á landinu sem bréfamaraþonið fer fram í ár. Einnig er hægt að senda stuðningskveðjur til fórnarlamba mannréttindabrota og ný vefsíða lítur dagsins ljós þar sem með einföldum hætti verður hægt að skrifa undir öll málin með einum smell eða velja þau mál sem fólk kýs að skrifa undir.

Bréfamaraþon Amnesty International er vitnisburður um það sem samtökin standa fyrir – baráttu einstaklinga fyrir aðra einstaklinga, hverjir sem þeir eru og hvaðan sem þeir koma!




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×