Viðskipti innlent

Of Monsters and Men greiða sér 50 milljónir í arð

Birgir Olgeirsson skrifar
Of Monsters and Men.
Of Monsters and Men. Vísir/Anton
Skrímsl ehf., sem sér um rekstur hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, skilaði tæpum 38 milljóna króna hagnaði í fyrra. Eigið fé félagsins nam 111,5 milljónum króna samkvæmt ársreikningi félagsins og lagði stjórnin til að félagið greiddi fimmtíu milljóna króna arð til hluthafa.

Hluthafar og stjórn félagsins eru meðlimir hljómsveitarinnar, þau Arnar Rósenkranz Hilmarsson, Brynjar Leifsson, Kristján Páll Kristjánsson, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir og Ragnar Þórhallsson.

Velgengni sveitarinnar hefur verið ævintýri líkast. Hún var stofnuð árið 2010 og vann Músíktilraunir sama ár. Árið 2011 gaf hún út plötuna My Head Is an Animal sem náði toppnum á rokklistum í Ástralíu, Írlandi og Bandaríkjunum.

Platan náði einnig inn á Billboard 200 listann, sjötta sæti í Bandaríkjunum, þriðja sæti í Bretlandi og inn á topp 20 lista víða í Evrópu sem og í Kanada. Í janúar árið 2014 tilkynnti sveitin á Facebook-síðu sinni að platan My Head is an Animal hefði náð platínu-sölu í Bandaríkjunum, sem gera milljón eintök.

Sveitin sendi frá sér plötuna Beneath the Skin fyrr í sumar sem fór beint í þriðja sæti á Billboard 200 listanum og seldist í rúmum 60 þúsund eintaka fyrstu vikuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×