Skoðun

Hafa skal það sem sannara reynist

Eyþór L. Arnalds skrifar
Björg Eva Erlendsdóttir stjórnarmaður og fv. stjórnarformaður RÚV skrifar grein í Fréttablaðið í gær þar sem hún segir: „Skýrsla Eyþórs var rýnd af öðrum fjölmiðlum, með almannatengslaráðgjafa, áður en stjórn RÚV sá hana.“ Þetta er alrangt. Stjórnarformaður RÚV fékk skýrsluna 5 vikum áður en hún var birt og afhent öðrum fjölmiðlum. Reyndar var starfsfólk RÚV með skýrsluna allan þann tíma. Björg Eva hlýtur að vera upplýst um þessar staðreyndir.

Ekki veit ég hvaðan sú hugmynd kemur í huga Bjargar Evu að almenningstengslaráðgjafi hafi rýnt skýrsluna með öðrum fjölmiðlum áður en stjórn RÚV sá hana en sú tilgáta er vægast sagt fjarstæðukennd. Það er ekki sæmandi stjórnarmanni í RÚV að halda fram fullyrðingum sem þessum. Það er hvimleiður ávani í íslenskri umræðu að kasta fram dylgjum. Þessi umræðuleið er sérstaklega áberandi hjá þeim sem vilja ekki taka málefnalega umræðu um málin. Þá er farið í manninn en ekki boltann. Björg Eva væri maður að meiri með því að biðjast afsökunar á þessum rangfærslum. Nefnd um starfsemi og rekstur RÚV sem menntamálaráðherra skipaði skilaði af sér skýrslu sem ráðherra sagði góðan grunn undir umræðuna. Því miður hafa of margir forðast að ræða efnisatriði og hvernig best er að bæta rekstur RÚV.

Ég er þess fullviss að skýrslan getur nýst stjórn RÚV vel til að fara yfir rekstur RÚV og vona ég að teknar verði skynsamlegar ákvarðanir byggðar á staðreyndum. Það er góður siður að horfast í augu við vandann þegar hann blasir við. Afneitun skilar aldrei góðum árangri.

RÚV hefur hvatt til opinnar umræðu við eiganda sinn, þjóðina, og farið hringferð í kringum landið nú í október. Er ekki nær að ræða um rekstrarvandann og lausnir á honum frekar en að reyna að kasta fram órökstuddum og röngum samsæriskenningum? Ég er viss um að tíma stjórnarmanns RÚV væri betur varið í að fara yfir vandann af yfirvegun. Það væri líka best fyrir RÚV.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×