Skoðun

Blákalt um birtingu RÚV-skýrslu

Björg Eva Erlendsdóttir skrifar
Eyþór Arnalds, RÚV-skýrsluhöfundur, sendir undirritaðri kuldakveðju í Fréttablaðinu fyrir helgi og sakar um ósæmilegar rangfærslur af ýmsu tagi.

Eyþór telur sig vita betur en ég, sem þó sit í stjórn RÚV, hvenær stjórnin fékk skýrsluna. Upplýst skal að skýrslan kom til stjórnar í tölvupósti frá útvarpsstjóra 29. október, klukkan 13.39. Þrjátíu og níu mínútum eftir að hún var kynnt almenningi á blaðamannafundi í Þjóðminjasafninu.

Mörgum dögum áður hafði birst umfjöllun um skýrsluna og tilvísanir í hana og skýrslubrot á Eyjunni. Og síðar hefur komið fram að almannatengill sá um dreifinguna.

Í viðbót við ásakanir um rangfærslur, dylgjur og að fara í manninn en ekki boltann, telur Eyþór að ég ætti að nota tímann til að skoða vanda útvarpsins af yfirvegun og ræða efnisatriði skýrslunnar, sem menntamálaráðherra telji svo góðan umræðugrunn. Og vissulega verður fróðlegt að ræða efnisatriði skýrslunnar við ráðherrann sem pantaði hana. Eyþór hefði hins vegar mátt ræða við fleiri á meðan skýrslan var í vinnslu, en þar vantaði talsvert upp á af hans hálfu. En nú hefur starfandi formaður RÚV, Guðlaugur Sverrisson, boðað fund með skýrsluhöfundum á mánudag.

Fullseint er það og ekki að frumkvæði skýrsluhöfunda, sem virðast ekki hafa gefið því gaum að yfir RÚV, var og er, þverpólitísk stjórn kjörin af Alþingi, þótt skýrslan gagnrýni stjórnir RÚV frá ohf-stofnun. Hefðu vandvirkir skýrsluhöfundar ekki átt frumkvæði að því að gefa bæði fyrrverandi og núverandi stjórnendum RÚV færi á að útskýra sínar ákvarðanir, meðan skýrslan var í vinnslu? Í stað þess að birta hana í sam­keppnis­miðlum fyrst og rífast svo um hana við þá sem bornir eru sökum í fjölmiðlum á eftir.

Því sýnist mér að málið liggi núna þannig að það sé Eyþór Laxdal Arnalds sem skuldi afsökunarbeiðni. Og ekki mér sérstaklega, heldur öllum þeim sem vilja Ríkisútvarpinu vel og að áfram starfi fjölmiðill í þágu og í eigu almennings.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×