Skoðun

Einelti er allra ábyrgð

Sólveig Karlsdóttir skrifar
Fyrir stuttu funduðu ungir stjórnmálamenn frá Norðurlöndunum á Íslandi þar sem þeir veltu m.a. fyrir sér netinu og hvernig tekið er á málum sem þar upp koma. Rætt var m.a. um hatursorðræðu, einelti og vörslu og dreifingu mynda. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opnaði fundinn og ræddi um og sýndi fundargestum hvað fólk hefur sagt um hana á netinu, þó var hún búin að eyða því versta. Þar sýndi hún unga fólkinu hvernig það er að vera opinber persóna á 21. öldinni. Einnig kom fram á fundinum að þetta hefur áhrif á það hvort ungt fólk ákveður að fara í út stjórnmál eða ekki í dag.

Láta allt flakka á netinu

Við þurfum ekki að vafra lengi á netinu til þess að finna ummæli í garð einstaklinga sem eru niðrandi, særandi , dónaleg eða hreinlega flokkast undir hatursorðræðu. Stundum fær maður þá tilfinningu að sumir haldi að á netinu sé hreinlega í lagi að segja allt og um leið og einn byrjar þá er eins og það gefi fleirum leyfi á að svara í sömu mynt. Ég leyfi mér að efast um að margt af því sem sagt er á netinu væri sagt augliti til auglitis. Á þetta bæði við um fullorðna sem og ungt fólk á netinu.

Hvað getum við gert?

Ekki gera ekki neitt! Til mín leitaði móðir fyrir stuttu og sagði frá því að hún hefði komist yfir samskipti unglinga á netinu og átti hreinlega ekki til orð yfir ósköpin! Samskiptin og orðbragðið var svo ljótt að hún gat ekki haft það eftir. Hún gerði þó meira en margir aðrir og þökk sé netinu, þá gat hún „googlað” og haft upp á foreldrum þessara einstaklinga sem hún sá að voru að senda skilaboðin. Foreldrarnir sem hún hafði samband við þökkuðu henni fyrir en vissu ekki af því að börnin þeirra voru að senda slík skilaboð. Því er mjög mikilvægt fyrir foreldra að ræða við börn sín um netnotkun, sýna því áhuga sem þau eru að gera á netinu, fara yfir hvernig við komum fram við aðra, hvaða upplýsingar er í lagi að setja á netið o.s.frv..

Hægt er að tilkynna óviðeigandi og ólöglegt efni á netinu með því að nota ábendingahnapp SAFT sem finna má á vefsíðu Heimilis og skóla, SAFT og Barnaheilla. Öllum ábendingum sem þangað koma er beint í réttan farveg og þeir sem tilkynna efni eiga að vera búnir að fá viðbrögð innan 24 klst. Hjálparsími Rauða Krossins 1717 er einnig mikilvægt verkfæri til að aðstoða börn og fullorðna við að takast á við skaðlegt efni og særandi samskipti á netinu, þangað er hægt að leita allan sólarhringinn alla daga ársins. Þar gefst fólki tækifæri til þess að ræða við hlutlausan aðila og fá upplýsingar um næstu skref. Flestir samfélagsmiðlar hafa einnig tilkynningahnapp, þar sem hægt er að tilkynna óviðeigandi efni eða slæm samskipti.

Mikilvægi trúverðugleika

Einnig er mikilvægt að fólk hafi trú á því að eitthvað sé raunverulega gert í málinu svo það nýti þau hjálpartæki sem til eru. Ef einstaklingar upplifa aðgerðaleysi fælir það viðkomandi frá að leita sér hjálpar eða reyna að breyta hlutunum. Nauðsynlegt er að þær leiðir sem boðnar eru hafi í för með sér einhvers konar lausn eða raunverulega aðstoð sem kemur að gagni.

Hvernig samfélagi viljum við búa í?

Við viljum búa í samfélagi þar sem það er í lagi að segja skoðanir sínar og tjá líðan. Við sjáum ungt fólk í auknum mæli segja frá ýmsum „tabúum“ á netinu. Þar hafa samfélagsmiðlar hjálpað og fólk fær stuðning. Við viljum einnig að í okkar samfélagi sé það reglan að við bregðumst við þegar við sjáum einelti, hatursorðræðu eða annað óviðeigandi efni á netinu. Það á ekki að vera undantekningin, þessu verðum við að snúa við. Verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum, byrjum í dag!




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×