Viðskipti innlent

Lægri vextir hækka íbúðaverð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lífeyrissjóður verslunarmanna lækkaði vexti á verðtryggðum lánum úr 3,7 prósentum í 3,6. Fastir vextir á verðtryggðum lánum Arion lækkuðu úr 3,9 prósentum í 3,8 og úr 7,5 í 7,25 á óverðtryggðum.
Lífeyrissjóður verslunarmanna lækkaði vexti á verðtryggðum lánum úr 3,7 prósentum í 3,6. Fastir vextir á verðtryggðum lánum Arion lækkuðu úr 3,9 prósentum í 3,8 og úr 7,5 í 7,25 á óverðtryggðum. vísir/vilhelm
„Lækkun langtímavaxta á íbúða­lánum grefur undan peningastefnunni og minnkar bit stýrivaxtahækkana,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Hún segir lækkanir á vöxtum íbúðalána til þess fallnar að auka verðbólgu.

Ásdís bætir við að vaxtalækkanir komi til með að auka eftirspurn á fasteignamarkaði og þrýsti þar með fasteignaverði upp, með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu. „Þegar vextir lækka þá lækkar fjármögnunarkostnaður miðað við óbreytt veðhlutfall og kaupgeta einstaklinga á fasteignamarkaði eykst.“

Ásdís bendir á að búist sé við frekari vaxtahækkunum Seðlabankans, þótt þeim hafi verið haldið óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun. Það sé furðuleg staða að langtímavextir á markaði lækki við slíkar aðstæður. „Erlendir aðilar sjá mikinn þrótt í íslensku efnahagslífi ólíkt til dæmis því sem við sjáum í Evrópu,“ segir Ásdís og bætir við að áhugi þeirra á að fjárfesta í löngum ríkisbréfum hafi því aukist mjög hratt á síðustu mánuðum. Aukin eftirspurn eftir slíkum bréfum hafi því leitt til þess að langtímavextir hafi lækkað. „Þetta er undarleg staða,“ segir Ásdís.

„Þetta minnir um margt á stöðuna 2004-2005 þegar Seðlabankinn hækkaði vexti til að sporna gegn aukinni þenslu og verðbólgu. Á sama tíma leiddi aukin samkeppni á íbúðalánamarkaði hins vegar til þess að langtímavextir fóru lækkandi. Þá var það Íbúðalánasjóður sem keppti við viðskiptabankana en í dag eru það lífeyrissjóðirnir,“ bætir hún við.

Ásdís segir líka skipta máli hver veðhlutföllin eru. „Aðgengi að lánsfé ræðst ekki aðeins af vaxtakostnaði heldur einnig veðhlutfalli. Á árunum 2004-2006 voru í boði allt að 100% íbúðalán en sú staða er ekki uppi núna. Fyrstu kaupendur þurfa enn sem komið er að reiða fram eigið fé en fjármagnskostnaðurinn er hins vegar að lækka.“

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA
Valdimar Ármann, sérfræðingur hjá GAMMA og aðjúnkt við hagfræðideild Háskóla Íslands, tekur undir þá skoðun að vaxtalækkunin vinni gegn vaxtahækkunum Seðlabankans. Hann tekur fram að þessi lækkun sé bein afleiðing af þróun ávöxtunarkröfu af ríkisskuldabréfum. „Ríkisskuldabréfavextir leggja ákveðið gólf á markaði og menn miða við það,“ segir Valdimar. Þetta þýði að lífeyrissjóðurinn og bankinn séu alls ekki markvisst að ganga gegn markmiðum Seðlabankans.

Þá segir Valdimar að menn geti líka spurt sig út í aðgerðir sveitarfélaga sem hafa heitið því að niðurgreiða lán til fyrstu kaupenda. „Er það þá að ógna fjármálastöðugleika? Það eykur lánsfjármagn og eykur þar af leiðandi eftirspurn eftir íbúðum,“ segir Valdimar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×