Viðskipti innlent

SFÚ hvetur aðildarfyrirtæki til að vanda val á fiskmörkuðum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stjórn SFÚ segir framgöngu FMÍ neyða þá til að hefja undirbúning að stofnun eigin fiskmarkaðar.
Stjórn SFÚ segir framgöngu FMÍ neyða þá til að hefja undirbúning að stofnun eigin fiskmarkaðar. Vísir/Vilhelm
Stjórn Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hvetur aðildarfyrirtæki sín sérstaklega til þess að vanda valið þegar kemur að viðskiptum við fiskmarkaði mánudaginn 26. október, fimmtudaginn 29. október og föstudaginn 30. október nk. Í tilkynningu frá stjórninni segir að mikilvægt sé að þeir fiskmarkaðir sem valdir eru séu sannanlega að vinna með hagsmuni seljenda sem og kaupenda að leiðarljósi. Við val á fiskmarkaði sé jafnframt mikilvægt að reikna inn í dæmið allan kostnað við kaup á viðkomandi markaði. Stjórnin segir að framganga Fiskmakarðar Íslands gegn hagsmunum kaupenda hafi neytt SFÚ til að hefja undirbúning að stofnun eigin fiskmarkaðar.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu SFÚ

Stjórn Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) skrifaði stjórn Fiskmarkaðar Íslands (FMÍ) bréf mánudaginn 28. september sl. og óskaði svara við nokkrum spurningum fyrir kl. 16. föstudaginn 2. október. Tilefni bréfskrifta voru ummæli Páls Ingólfssonar, framkvæmdastjóra FMÍ, í viðtali við kynningarritið, Sóknarfæri í sjávarútvegi, sem dreift var með Morgunblaðinu föstudaginn 25. september.

Í viðtalinu lýsti framkvæmdastjórinn sig alfarið andvígan því að allur afli fari á markað og að einungis ætti að skylda útgerðir til að miðla í gegnum fiskmarkaði afla sem þær ekki verka sjálfar. Þá lofsamaði hann þá óslitnu virðiskeðju, sem felst í því að stór sjávarútvegsfyrirtæki ráði ferlinu frá veiðum til vinnslu og áfram til kaupenda þar sem það tryggi afhendingaröryggi þeirra.

Með öðrum orðum lýsti framkvæmdastjórinn þeirri skoðun sinni að fiskmarkaðir hafi það hlutverk helst að þjóna sem yfirfallskista fyrir handhafa aflaheimilda og að hagsmunir kaupenda séu afgangsstærð. Afhendingaröryggi sjálfstæðra framleiðenda sem gert hafa sölusamninga í útlöndum hefur, samkvæmt orðum framkvæmdastjórans, ekki sama vægi og afhendingaröryggi stórra útgerðarvinnsla.

Framkvæmdastjórinn fullyrðir að núverandi fyrirkomulag verðmyndunar á sjávarfangi stuðli að verðmyndun á frjálsum markaði. Þessi staðhæfing gengur þvert gegn áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2012 (https://www.samkeppni.is/media/alit-2012/alit_2_2012_Motun_loggjafar_um_fiskveidistjornun.pdf) þar sem bent er á að tvöföld verðmyndun í sjávarútvegi og beint samráð útgerðaraðila um skiptaverð verðlagsstofu leiði „til þess að framboð á fiskmörkuðum verði minna og verðmyndun á þeim ekki jafn skilvirk.“

Síðar í álitinu segir: „Af framangreindu leiðir að kerfi sem skapar hvata til þess að minni sjávarafli fari um fiskmarkaði getur gert samkeppnisstöðu fiskvinnslu án útgerðar enn torveldari.“

Í niðurstöðukafla álitsins beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að hann beiti sér fyrir því að komið verði í veg fyrir þær samkeppnishindranir sem leiða af þeim lögum og þeirri framkvæmd sem vikið er að hér að framan með lagasetningu og/eða öðrum aðgerðum sem tryggja að samkeppni skerðist ekki að óþörfu á þessu sviði.

Í bréfinu til stjórnar FMÍ bendir SFÚ á að FMÍ hefur ítrekað hunsað og virt að vettugi hagsmuni kaupenda m.a. með því að verða ekki við beiðni um lagfæringar á stærðarflokkun afla og gjaldskrárbreytingum sem hafa aukið kostnað kaupenda um tugi milljóna á ári. Þessi framganga FMÍ gegn hagsmunum kaupenda hefur neytt SFÚ til að hefja undirbúning að stofnun eigin fiskmarkaðar sem tryggi betur hagsmuni beggja, seljenda og kaupenda, en FMÍ gerir undir forystu núverandi framkvæmdastjóra.

Eftirfarandi spurningum var beint til stjórnar FMÍ:

Tekur stjórnin undir það álit framkvæmdastjóra FMÍ að fiskmarkaðir hafi þann tilgang helstan að þjóna sem yfirfallskistur fyrir handhafa aflaheimilda?

Hve lengi telur stjórnin að FMÍ geti starfað án kaupenda? (Þessari spurningu þarf einungis að svara sé svar stjórnarinnar við spurningu 1 jákvætt)?

Telur stjórnin eðlilegt að fiskmarkaðir tryggi hagsmuni kaupenda svo sem kostur er eða tekur hún undir málflutning framkvæmdastjórans um að hagsmunir stórútgerðarinnar vegi þyngra en allir aðrir?

Telur stjórnin núverandi tvöfalt verðmyndunarkerfi í sjávarútvegi stuðla að verðmyndun á frjálsum markaði og eðlilegu samkeppnisumhverfi í íslenskum sjávarútvegi? (Sé svar stjórnar jákvætt er óskað eftir rökstuddum skýringum á því hvernig það samræmist þeirri niðurstöðu sem birtist í áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2012)

Hvað telur stjórnin vera eðlilegt hlutfall afla inn á fiskmarkaði til að tryggja hráefnisöryggi og raunverulega markaðsmyndun verðs? (Rökstuðningur óskast)

Hvernig réttlætir stjórnin þær gríðarlegu gjaldskrárhækkanir á kaupendur sem FMÍ innleiddi einhliða í ársbyrjun 2014 þegar stjórnvöld hvöttu til verðstöðvunar í samfélaginu? (FMÍ kynnti þá m.a. til sögunnar sérstakt kaupendagjald sem nemur 0,65% af verðmæti selds afla, nokkuð sem greinilega endurspeglar ekki kostnað við þjónustu FMÍ. FMÍ er eini stóri markaðurinn sem innheimtir slíkt kaupendagjald.)

Engin svör og raunar engin viðbrögð hafa borist frá stjórn FMÍ. Því lítur stjórn SFÚ svo á að framganga FMÍ og framkvæmdastjórans gegn hagsmunum kaupenda sé með bæði vitund og vilja stjórnarinnar.

Með hliðsjón af ofangreindu hvetur stjórn SFÚ aðildarfyrirtæki sín sérstaklega til þess að vanda valið þegar kemur að viðskiptum við fiskmarkaði mánudaginn 26. október, fimmtudaginn 29. október og föstudaginn 30. október nk., en mikilvægt er að þeir fiskmarkaðir sem valdir eru séu sannanlega að vinna með hagsmuni seljenda sem og kaupenda að leiðarljósi. Við val á fiskmarkaði er jafnframt mikilvægt að reikna inn í dæmið allan kostnað við kaup á viðkomandi markaði.

Í framhaldinu áskilur SFÚ sér rétt til að grípa til frekari ráðstafana til að tryggja hagsmuni sinna aðildarfyrirtækja.

Reykjavík, 20. október 2015

F.h. stjórnar SFÚ

Ólafur Arnarson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×