Innlent

Búist við skorti á mjólkurfræðingum

Sveinn Arnarsson skrifar
Mjólkurfræðingum, sem nú eru 96 talsins, gæti fækkað umtalsvert á næstu árum.
Mjólkurfræðingum, sem nú eru 96 talsins, gæti fækkað umtalsvert á næstu árum. vísir/pjetur
Svo gæti farið að innan nokkurra ára verði skortur á mjólkurfræðingum á Íslandi. Enginn Íslendingur er nú við nám í mjólkurfræði og aðeins þrír mjólkurfræðingar hafa útskrifast frá árinu 2011. Landbúnaðarráðherra hefur miklar áhyggjur af stöðunni og telur eðlilegt að hlutast til um málið.

Flestir íslenskir mjólkurfræðingar hafa numið greinina í Óðinsvéum en eftir að Danir gerðu útlendingum erfitt að sækja námið hefur enginn sótt nám í skólanum. Meðalaldur mjólkurfræðinga á Íslandi er um 50 ár og margir þeirra eru við það að fara á eftirlaun.

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra er áhyggjufullur yfir stöðunni. „Eftir að mér var greint frá stöðu mála hef ég verið að kanna þetta og ef fram heldur sem horfir gætum við horft upp á skort á mjólkurfræðingum í nánustu framtíð. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðunni og tel að við þurfum að skoða þetta ofan í kjölinn til að tryggja að íslenskt þjóðfélag eigi nægilegan fjölda mjólkurfræðinga,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson
Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins hefur ekki verið starfandi frá því í febrúar á þessu ári og ný nefnd hefur ekki verið skipuð hjá menntamálaráðherra. Menntamálaráðherra sagði í þingræðu þann 20. október 2014 að hann hefði átt samtal við dönsk yfirvöld vegna málsins. „Ég átti ágæta fundi með danska menntamálaráðherranum í sumar þar sem við ræddum meðal annars breytingar á starfsnámi hjá Dönum. Fyrirhuguð er ferð til Danmerkur til þess að grafast fyrir um þær lausnir sem þeir hafa fundið.“ Nú ári seinna virðast ekki vera breytingar í farvatninu.



Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Jóhanna María Sigmundsdóttir er forsvarsmaður þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir þinginu um að fela menntamálaráðherra að ráðast í endurskoðun á tilhögun náms í mjólkurfræði þannig að tryggt verði að íslenskir nemendur komist að í slíku námi. „Eins og staðan er núna er þetta grafalvarlegt. Mjólkurfræðingar vinna í brugghúsum og í sælgætisiðnaði svo dæmi séu tekin svo þetta er mikilvæg iðngrein. Ef fram heldur sem horfir mun verða mikil vöntun á íslenskum mjólkurfræðingum mjög fljótlega,“ segir Jóhanna María. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×