Viðskipti innlent

Segja samninginn við ESB takmarkaða aðgerð

Sæunn Gísladóttir skrifar
FA telur að ályktun stéttarfélagsins Framsýnar horfi framhjá þeim tækifærum sem matvælaiðnaðinum eru sköpuð á markaði ESB með samningnum.
FA telur að ályktun stéttarfélagsins Framsýnar horfi framhjá þeim tækifærum sem matvælaiðnaðinum eru sköpuð á markaði ESB með samningnum. vísir/gva
Félag atvinnurekenda telur að nýlegt samkomulag Íslands og Evrópusambandsins um aukna fríverslun með landbúnaðarafurðir sé stórst og jákvætt skref í þá átt að aflétta þeim hömlum sem eru á milliríkjaviðskiptum með matvöru. Engu að síður telur FA hann mjög takmarkaða aðgerð.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FA.

FA telur að ályktun stéttarfélagsins Framsýnar, þar sem látið er að því liggja að fjöldi starfa geti tapast í matvælaiðnaði vegna aukins innflutnings búvöru, virðist horfa framhjá þeim tækifærum sem matvælaiðnaðinum eru sköpuð á markaði ESB með samningnum.

FA telur einnig að framsetning sem var í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins um samninginn vera villandi þar sem segir „…Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum.“ Þegar borin sé saman núverandi tollskrá og listar þeir yfir tollskrárnúmer sem á samkvæmt samningnum að fella niður tollana af komi annað í ljós. Um sé að ræða 345 tollskrárnúmer en 244 þeirra séu þegar tollfrjáls. Þar sé um að ræða til dæmis ýmsar sykurvörur, gerjaða drykki með lágu alkóhólinnihaldi og fóðurvörur, en allt skiptist þetta í mörg undirnúmer. Í raun sé því aðeins verið að afnema tollana af 101 tollskrárnúmeri. Þar munar mest um pitsur, bökur og pasta, villibráð, kex og súkkulaði. Ekkert af þessum vörum sé í beinni samkeppni við innlenda búvöruframleiðslu.

Telur félagið ástæðu til að vekja athygli á því að þótt í tilkynningum stjórnvalda segi að „allir tollar á unnar landbúnaðarvörur [séu] felldir niður nema á jógúrt“, eigi það ekki við um vörur á borð við skinku, pylsur, kæfu og osta, sem í huga margra teljast unnar landbúnaðarvörur. Tollar á þessum vörum verði áfram háir.

FA bendir einnig á að samningurinn við ESB taki aðeins til 28 ríkja af 161 aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Áfram gildo ofurtollar gagnvart búvöruinnflutningi frá ýmsum helstu útflytjendum búvöru á heimsvísu, til dæmis Bandaríkjunum, Suður-Ameríkuríkjum og Ástralíu og Nýja Sjálandi. Tollkvótar samkvæmt WTO-samningnum eru miðaðir við innanlandsneyslu eins og hún var á árunum 1986-1988 og veita í flestum tilvikum innlendum landbúnaði litla sem enga samkeppni. Ýmsir tollar í viðskiptum við ríki ESB verði áfram gífurlega háir, jafnvel þótt samið hafi verið um að lækka þá. Þannig verði áfram 46% tollur á frönskum kartöflum, en er nú 76%. Þá lækka tollar á til dæmis smjöri og jógúrt ekki neitt.

„Að þessu samandregnu er óhætt að fullyrða að þótt samningurinn við ESB sé skref í áttina, verður fríverslun með búvörur áfram mjög takmörkuð þótt hann taki gildi,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Heimsendaspár um áhrifin á íslenskan landbúnað eru allsendis ótímabærar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×