Viðskipti innlent

Tæplega 1,5 milljarða króna velta

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Jóhannsson forstjóri getur glaðst yfir stöðunni.
Björgólfur Jóhannsson forstjóri getur glaðst yfir stöðunni. Fréttablaðið/GVA
Velta með bréf Icelandair Group í Kauphöll Íslands nam 1.480 milljónum króna í gær. Hækkaði gengi bréfanna um 3,63 prósent og stóð í 33,55 krónum á hlut í lok dags. Hefur gengi bréfa í félaginu aldrei verið hærra.

Ástæða mikils áhuga á bréfum Icelandair Group er sú að snemma í gærmorgun birti Icelandair Group tilkynningu með uppfærðri afkomuspá fyrir þriðja fjórðung. Þar kom fram að samkvæmt drögum að árshlutareikningi er afkoma Icelandair Group betri á þriðja fjórðungi en ráðgert hafði verið. J

afnframt hafa afkomuhorfur fyrir fjórða ársfjórðung styrkst og er uppfærð EBITDA-spá félagsins fyrir árið í heild 30 milljónum dala, eða fjórum milljörðum króna, betri en ráðgert var.

Búist er við að rekstrarhagnaðurinn (EBITDA) verði á bilinu 27-27,7 milljarðar króna á árinu. Áður hafði verið búist við því að rekstrarhagnaðurinn yrði á bilinu 23,2-23,8 milljarðar króna.

Samkvæmt drögunum verður rekstrarhagnaður þriðja ársfjórðungs um 150 milljónir dala (19,3 milljarðar króna) samanborið við um 124 milljónir dala (16 milljarða króna) á árinu 2014. Samkvæmt áðurnefndri tilkynningu eru ástæður fyrir betri afkomu á þriðja ársfjórðungi en gert hafði verið ráð fyrir einkum hærri farþegatekjur og lægri eldsneytiskostnaður. Að auki var viðhaldskostnaður lægri en áætlað hafði verið.

Áfram má búast við vexti hjá Icelandair Group því flugáætlun dótturfélagsins Icelandair fyrir næsta ár verður um 18 prósentum umfangsmeiri en í ár. Gert er ráð fyrir að farþegar verði um 3,5 milljónir og muni fjölga um 450 þúsund milli ára. Uppgjör þriðja fjórðungs verður birt á fimmtudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×