Körfubolti

Haukur Helgi: „Gott að koma heim til að hlaða batteríin“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Helgi fór á kostum með landsliði Íslands á EM í Berlín í september.
Haukur Helgi fór á kostum með landsliði Íslands á EM í Berlín í september. Vísir/Valli
„Þetta gerðist mjög hratt," segir Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta, við Vísi um vistaskipti sín til Njarðvíkur sem voru tilkynnt á blaðamannafundi í Ljónagryfjunni í dag.

Haukur kemur til Njarðvíkur frá þýska 1. deildar liðinu MBC þar sem hann fékk sex vikna samning eftir Evrópumótið. Hann ákvað að vera ekki áfram þar heldur koma heim.

„Það var ekkert annað í boði úti. Ég vildi taka eitt tímabil heima núna, þess vegna tók ég ákvörðun að taka ekki sénsinn á að MBC gæti samið við mig aftur. Ég vildi koma heim fyrir mig," segir Haukur Helgi.

„Ég er mjög spenntur. Þetta verður mjög skemmtilegt. Ég hlakka til að spila með þessum strákum."

Haukur Helgi er mættur á klakann og var kynntur til sögunnar í Njarðvík í dag.Vísir/Valtýr
Tilfinningalegt gildi

Haukur Helgi hefur verið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og svo í atvinnumennsku undanfarin sex ár en hlakkar til að spila heima.

„Mann langar svo sem alltaf að koma heim en núna vildi ég láta slag standa eftir langa veru úti. Ég er bara aðeins að hlaða batteríin og fara svo aftur af stað eftir það," segir Haukur Helgi, en af hverju Njarðvík?

„Njarðvík hefur mest tilfinningalegt gildi fyrir mig. Ég þekki mikið af góðu fólki hérna og það sem ég þarf til að hlaða batteríin almennilega er að vera í kringum gott fólk," segir hann.

Beint í sjónvarpið

„Ég hef æft hérna á sumrin og inn í Keflavík. Ég þekki Loga vel og við höfum æft saman hérna. Þetta var ekkert auðveld ákvörðun en samt auðveldari en margt annað vegna tengingar minnar við félagið."

Haukur Helgi verður í eldlínunni á föstudaginn þegar Njarðvík mætir Íslandsmeisturum KR í sjónvarpsleik umferðarinnar, en áttar hann sig á þeirri pressu sem verður á honum?

„Maður tekur alltaf vel í pressu. Það er alltaf gott að hafa smá pressu á sér. Ég er alveg tilbúinn," segir Haukur Helgi Pálsson sem ætlar að verða Íslandsmestari með Njarðvík

„Ég stefni að því," segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×