Viðskipti innlent

Hreiðar fer fram á að dómari í Marple-málinu víki sæti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson við aðalmeðferð Marple-málsins.
Hreiðar Már Sigurðsson við aðalmeðferð Marple-málsins. vísir/gva
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og einn sakborninga í Marple-málinu svokallaða, fer fram á að sérfróður meðdómandi í málinu víki sæti.

Meðdómandinn, Ásgeir Brynjar Torfason, er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sitja í fjölskipuðum dómi þau Símon Sigvaldason, héraðsdómari og dómsformaður, og Kristrún Kristinsdóttir, héraðsdómari.

Aðalmeðferð lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 11. september síðastliðinn og samkvæmt dagskrá á að kveða upp dóm í málinu á föstudaginn, sléttum fjórum vikum eftir að málið var dómtekið.

Að sögn Harðar Felix Harðarsonar, verjanda Hreiðars, byggir krafan á upplýsingum sem bárust eftir að málið var dómtekið. Hann segir að svo þurfi ekki endilega að fara að dómsuppsagan frestist þar sem um tiltölulega einfalda kröfu sé að ræða. Málflutningur vegna kröfunnar fer fram á morgun.

Dómsformaðurinn í málinu mun taka afstöðu til kröfu Hreiðars um að Ásgeir víki sæti. Meti hann það sem svo að meðdómandinn þurfi að víkja þarf aðalmeðferð málsins að fara fram á ný.

Sérstakur saksóknari ákærði fjóra í Marple-málinu, þau Hreiðar Má, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, og Skúla Þorvaldsson, eiganda félagsins Marple Holding og einn af stærstu viðskiptavinum Kaupþings fyrir hrun. Fjórmenningarnir eru ýmist ákærðir fyrir fjárdrátt, hlutdeild í fjárdrætti eða hylmingu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×