Viðskipti innlent

Marple-málið: Hreiðar, Magnús og Skúli dæmdir í fangelsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már fékk sex mánaða dóm, Magnús fékk átján mánaða dóm og Skúli sex mánaða dóm.
Hreiðar Már fékk sex mánaða dóm, Magnús fékk átján mánaða dóm og Skúli sex mánaða dóm. vísir/gva
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Skúli Þorvaldsson, eigandi félagsins Marple Holding og einn af stærstu viðskiptavinum Kaupþings fyrir hrun, voru í Héraðsdómi Reykjvíkur í dag dæmdir til refsingar í Marple-málinu svokallaða.

Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var hins vegar sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Enginn sakborninga var viðstaddur dómsuppkvaðningu.

Hreiðar var dæmdur í sex mánaða fangelsi, Magnús í 18 mánaða fangelsi og Skúli í 6 mánaða fangelsi. Dómstólar hafa því nú dæmt bæði Hreiðar og Magnús í alls sex ára fangelsi vegna efnahagsbrota en Hæstiréttur hafði áður dæmt þá til refsingar vegna Al Thani-málsins. Hreiðar fékk þá fimm og hálfs árs dóm og Magnús var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Tugir milljóna í málskostnað

Héraðsdómur féllst á skaðabótakröfu Kaupþings á hendur Hreiðari, Magnúsi og Skúla vegna málsins.



Hreiðar var dæmdur til að greiða verjanda sínum, Herði Felix Harðarsyni, tæpar 24 milljónir króna í málskostnað.

Magnús var dæmdur til að greiða Kristínu Edwald, verjanda sínum, tæpar tólf milljónir króna í málsvarnarlaun. Þá var Skúli Þorvaldsson dæmdur til að greiða verjanda sínum, Halldóri Þ. Birgissyni, tæpar 18 milljónir króna sem og málsvarnarlaun verjanda síns á rannsóknarstigi, tæpar 8 milljónir króna.

Ríkissjóður var dæmdur til að greiða málskostnað Guðnýjar Örnu, rúmar 18 milljónir króna, en Sigurður G. Guðjónsson var verjandi hennar. Þá var skaðabótakröfu Kaupþings á hendur henni vísað frá dómi.

Ákært fyrir fjárdrátt, hlutdeild í fjárdrætti eða hylmingu

Í málinu ákærði sérstakur saksóknari fjórmenningana ýmist fyrir fjárdrátt, hlutdeild í fjárdrætti eða hylmingu.

Ákæran grundvallaðist á þremur ætluðum brotum. Í fyrsta lagi 3 milljarða króna millifærslu Kaupþings til félagsins Marple Holding í Lúxemborg hinn 19. desember 2007.

Vegna hennar voru Hreiðar Már og Guðný Arna aðallega ákærð fyrir fjárdrátt og Magnús ákærður fyrir hlutdeild í broti þeirra. Þá var Skúli ákærður aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega þessum peningum og taka þannig þátt í auðgunarbroti.

Í öðru lagi var um að ræða aðra rúmlega þriggja milljarða króna millifærslu frá Kaupþingi til Marple Holding sem var frágengin hinn 1. júlí 2008. Hreiðar Már og Guðný voru einnig ákærð fyrir fjárdrátt vegna þessarar millifærslu, Magnús fyrir hlutdeild í fjárdrætti og Skúli fyrir hylmingu.

Í þriðja lagi er um að ræða kaup Kaupþings banka á skuldabréfum útgefin af bankanum sjálfum í sjö skuldabréfaflokkum með áföllnum vöxtum af Marple Holding samtals upp á 57,4 milljónir evra annars vegar og 45,3 milljónir dollara hins vegar.

Var kaupverðið langt yfir markaðsverði samkvæmt ákærunni og olli Kaupþingi fjártjóni. Guðný Arna og Hreiðar Már voru ákærð fyrir umboðssvik vegna þess og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×