Innlent

Hlutur bensínbíla aldrei verið minni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Tengiltvinnbílum (e. Plug-in-Hybrid) er spáð vaxandi vinsældum á Norðurlöndum, enda nýtast þeir líka þar sem lengra er á milli hleðslustöðva. Hér má sjá kynningu á slíkum bíl frá Volvo á Alþjóðlegu bílasýningunni í Leipzig í Þýskalandi í fyrra.
Tengiltvinnbílum (e. Plug-in-Hybrid) er spáð vaxandi vinsældum á Norðurlöndum, enda nýtast þeir líka þar sem lengra er á milli hleðslustöðva. Hér má sjá kynningu á slíkum bíl frá Volvo á Alþjóðlegu bílasýningunni í Leipzig í Þýskalandi í fyrra. vísir/epa
Vistvænir fólksbílar eru í stórsókn að því er fram kemur í gögnum Samgöngustofu um bíla og eldsneytisgjafa þeirra. Frá árslokum 2010 hefur bílum sem nýta aðra orkugjafa en bensín eða dísil eingöngu fjölgað um 312,5 prósent, á meðan hinum fjölgar um 8,5 prósent. Bílar sem ganga fyrir rafmagni í einhverri mynd, annað hvort einu saman eða í tvinn- eða tengiltvinnbílum, eru flestir þegar kemur að svokölluðum vistvænni bílum (2.195 í lok þessa mánaðar), en þar á eftir koma bílar sem nota metan í einhverri mynd (644).

Þá kemur fram að um leið og fólksbílafloti landsmanna hefur stækkað ört síðustu ár hefur hlutur bíla sem eingöngu ganga fyrir bensíni aldrei verið minni, eða 73,2 prósent. Hlutur dísilbíla hefur hins vegar vaxið stöðugt frá aldamótum, eða um sem nemur 50 prósentum á hverjum fimm árum. Núna eru dísilbílar 25,5 prósent fólksbíla landsins. Restin skiptist á milli bíla sem nota rafmagn (tæpt prósent) og svo þeirra sem nota metan (um þriðjungur úr prósenti). Aðrir orkugjafar mælast í brotabrotum úr prósenti.

Fólksbílum hefur hins vegar fjölgað um tæp 40 prósent frá árinu 2000 og eru nú 225.187 á götum landsins.

Özur Lárusson framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, bendir á að fólksfjölgun skýri hluta aukningarinnar, en á vef Hagstofunnar má sjá að frá 2000 hefur landsmönnum fjölgað um sem nemur 18 prósentum. „Stærsti parturinn er svo fjölgun ferðamanna, en sprengja hefur orðið í fjölda bílaleigubíla,“ bætir hann við.

Skarður hlutur bensínbíla og aukning í notkun dísilbíla segir Özur svo skýrast af opinberri stefnumörkun, bæði hér og í Evrópu. „Stjórnvöld fóru í meiri mæli að beina fólki á dísilbílana á þeim formerkjum að þeir væru umhverfisvænni en bensínbílar.“ Í framhaldinu hafi bílaframleiðendur lagt áherslu á að ná niður eyðslu dísilbíla og gengið mjög vel. Opinber neyslustýring og sífellt sparneytnari dísilvélar hafi svo ýtt undir aukinn hlut þessara bíla.

Núna hafi hins vegar komið á daginn að dísilvélar séu ekki jafnumhverfisvænar og talið hafi verið. „Burtséð frá þessu Volkswagen hneyksli þá hefur nýverið komið upp að sótagnir, eða NOx-efni, sem koma frá þessum vélum séu talin skaðlegri en efni sem koma frá bensínvélum.“ Framleiðendur hafi þó síðustu ár líka náð miklum árangri í að minnka þessa sótagnamengun.

„En á meðan stjórnvöld og bílaframleiðendur hafa ýtt dísilvélum að fólki hefur bensínvélin setið svolítið á hakanum. Hún á þess vegna fullt inni og menn eru í auknum mæli að snúa sér að þróun á henni, að ná niður eyðslu og gera hana hagkvæmari.“ Nú þegar séu komnar fram bensínvélar sem séu umhverfisvænar og eyði sáralitlu. „Það gæti því orðið einhver breyting á þessum hlutföllum aftur.“

Hvað varðar fjölgun rafmagnsbíla segir Özur margt þurfa að gera í uppbyggingu innviða, svo sem hleðslustöðva, eigi að rafbílavæða þjóðina. Fjölgun þeirra allra síðustu ár eigi hins vegar rót sína í því að þeir séu án virðisaukaskatts og vörugjalda.

Slík niðurfelling gjalda kunni að vera leið til að flýta fyrir þróun þar sem hlutur rafbíla verður enn stærri. Özur bendir þó á að á nýafstöðnum fundi bílgreinasambanda á Norðurlöndum hafi þessi mál verið rædd og komið fram að Norðmenn standi nú frammi fyrir endurskipulagningu þar sem afnema á miklar ívilnanir sem rafbílaeigendur hafa notið.

„Þeir og aðrir á Norðurlöndum spá því að framtíðin liggi í þessum Plugin-Hybrid-bílum.“ Það eru blendingsbílar þar sem keyra má ákveðna vegalengd á rafmagninu eingöngu, en svo taki annað hvort bensín eða dísil við. „Þeirra spá er að breytingin verði í þessa veru á kostnað hreinna rafmagnsbíla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×