Innlent

Bændasamtökin fordæma illa meðferð á dýrum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aðbúnaður
Aðbúnaður vísir/Auðunn
Bændasamtök Íslands fordæma illa meðferð á dýrum en segja að hlutfall þeirra búa sem Matvælastofnum hafi ekki gert athugasemd við sé mjög hátt. Ný lög um velferð dýra gera ríkari kröfur til aðbúnaðar búfjár en áður tíðkaðist og aðlögunartími hefur ekki verið mikill að mati samtakanna.

Í yfirlýsingu frá Bændasamtökum Íslands vegna fjölmiðlaumfjöllunar um aðbúnað og velferð dýra segir að við eftirlit hafi 832 bú í frumframleiðslu verið heimsótt. Aðeins hafi verið gert athugasemdir við 47 bú eða 5,6 prósent. Því sé hlutfall þeirra búa sem ekki voru gerðar athugasemdir við mjög hátt, eða rúmlega 94%

Ennfremur segir að með nýjum lögum um velferð dýra sem sett voru árið 2014 hafi tekið gildi á Íslandi mjög framsæknar reglur um velferð dýra og að innleiðingu þeirra hafi fylgt miklar áskoranir fyrir landbúnaðinn. Lögin og reglugerðir sem á þeim byggja gera ríkari kröfur til aðbúnaðar búfjár en áður hefur tíðkast.

Skammur tími til aðlögunar

Til að uppfylla kröfur þurfa bændur í mörgum tilvikum að aðlaga húsakost og innréttingar í gripahúsum. Til þess hafa þeir ekki haft mjög langan tíma því að reglugerðir um aðbúnað einstakra dýrategunda tóku gildi á eftir lögunum sjálfum, sú síðasta ekki fyrr en í janúar á þessu ári. Bændasamtakin segja að um afar kostnaðarsamar breytingar sé að ræða og það sé viðfangsefni sem landbúnaðurinn sé að takast á við.

Í yfirlýsinguni segir það séu hagsmunir bænda að dýravelferð sé í hávegum höfð í allri framleiðslukeðjunni og að bændur vilji standa undir því trausti sem neytendur hafa sýnt þeim. Það þýði að dýravelferð verði að vera í lagi.

Bændasamtökin hafa óskað eftir fundi í samstarfsnefnd Bændasamtaka Íslands og Matvælastofnunar til að ræða þessi mál og skipuleggja hvernig unnið verði að því að tryggja að velferð og aðbúnaður búfjár á Íslandi verði til fyrirmyndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×