Innlent

Hundrað þúsund á mann

Sæunn Gísladóttir skrifar
Björn Zoëga telur að mögulega væri hægt að mæta auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu með meiri kostnaðarþátttöku efnameiri sjúklinga.
Björn Zoëga telur að mögulega væri hægt að mæta auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu með meiri kostnaðarþátttöku efnameiri sjúklinga. nordicphotos/getty
Aukin skattheimta og vaxandi kostnaðarhlutdeild sjúklinga eru ekki sjálfbærar leiðir til að glíma við framtíðaráskoranir við fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Stjórnvöld ættu frekar að horfa til aukinnar hagkvæmni í rekstri, til að mynda með því að virkja betur einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu og skýrari afmörkun þeirrar þjónustu sem hið opinbera fjármagnar. Þetta kemur fram í Skoðun Viðskiptaráðs, Höldum heilsunni, sem gefin var út í gær.

Björn Zoëga, formaður verkefnastjórnar um betri heilbrigðisþjónustu, segist ekki að öllu leyti sammála þessari ályktun. Hann telur að spítalinn hafi áður sannað að hægt sé að ná hagkvæmni hjá opinberum fyrirtækjum, án aukinnar einkavæðingar.

Í Skoðuninni kemur fram að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 verður 160 milljörðum varið til heilbrigðismála. Þetta er stærsti útgjaldaliður hins opinbera, eða um fjórðungur heildarútgjalda. Í fyrra námu útgjöld einstaklinga til heilbrigðismála um 33 milljörðum króna, sem jafngildir að meðaltali 100 þúsund krónum á mann. Innifalið í því eru aðalflokkarnir lyf, hjálpartæki, heilsugæsla, sérfræðiþjónusta, tannlækningar, sjúkrahúsþjónusta og sjúkraþjálfun.

Björn Zoega
Á síðustu 30 árum hafa heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu aukist úr 7,3% upp í 8,9% samtímis því að aldurssamsetning þjóðarinnar breyttist tiltölulega lítið. Næstu 30 ár mun aldurssamsetningin breytast til muna; öldruðum mun fjölga ört og einstaklingum á vinnufærum aldri fækka. Því má áætla að heilbrigðisútgjöld muni vaxa nær þrefalt hraðar.

Björn telur mögulega hægt að mæta auknum útgjöldum með hærri kostnaðarþátttöku efnameiri sjúklinga. „Ég held að það sé spurning um pólitíska útfærslu hvort eigi að taka sjúklingagjöld eða skattgreiðslu,“ segir Björn.

Viðskiptaráð telur æskilegra fyrirkomulag að opinber útgjöld vegna heilbrigðismála fari í auknum mæli í gegnum Sjúkratryggingar. Fjárframlög til einstakra rekstraraðila myndu þá byggja á magni og gæðum þeirrar þjónustu sem viðkomandi aðili veitir. Það fyrirkomulag myndi jafnframt opna fyrir aukna aðkomu einkaaðila að veitingu heilbrigðisþjónustu sem hið opinbera fjármagnar. Með auknum einkarekstri á ákveðnum sviðum heilbrigðisþjónustu sem sambærileg eru við almenna atvinnustarfsemi telur ráðið að hægt sé að mynda samkeppni um þjónustu. Með því að bjóða út tímabundna samninga um veitingu þjónustu geta stjórnvöld tryggt að ávinningur af auknu rekstrarhagræði skili sér í lægri kostnaði fyrir skattgreiðendur.

Björn telur alltaf gott að hafa ákveðið aðhald sem einkareksturinn gefur, en á móti kemur að þar er öðru vísi krafa um arðsemi og einhvers staðar verði hún tekin út. „Ég held að spítalinn hafi áður sannað að það er hægt að ná hagkvæmni hjá opinberum fyrirtækjum líka, það fer bara eftir því hvernig þú setur upp hvata, og setur upp stofnunina eða fyrirtækið. Mér finnst það ekki hafa sýnt sig neins staðar annars staðar að aukin einkavæðing sé lausn á málum. Ef umgjörðin hjá hinu opinbera er þannig að það séu í fyrsta lagi réttir hvatar og þar að auki að stofnuninni verði gert að reka sig með sömu forsendum og einkarekstur, þá get ég ekki séð að það sé annað en jákvætt fyrir samfélagið,“ segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×