Skoðun

Fordæmalaust klúður meirihlutans

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Undanfarna daga höfum við horft upp á ógurlegt klúður í borgarstjórn. Meirihlutinn hefur viðurkennt að hafa ekki haft hugmynd um hvað hann var að samþykkja þegar ákveðið var að sniðganga vörur frá Ísrael eða hverjar afleiðingarnar yrðu. Þær hafa reynst margvíslegar, bæði fyrir viðskiptahagsmuni og orðspor Íslands.

Sumir spyrja: Var ekki verið að standa á prins­ippum um mannréttindi? Er ekki sjálfsagt að taka afleiðingunum? Það væri það ef til þess bærir aðilar hefðu tekið ákvörðunina, í samstarfi við bandalagsríki okkar. En samþykkt borgarstjórnar gekk þvert á utan­ríkis­stefnu Íslands og utanríkisviðskiptastefnuna eins og hún hefur verið praktíseruð; að eiga sem frjálsust viðskipti við öll ríki þótt við höfum mögulega enga velþóknun á stjórnarfari þeirra. Þessar heimatilbúnu refsiaðgerðir ganga líka gegn landslögum. Þess vegna eru neikvæðu afleiðingarnar ólíðandi; þær koma til af því að ákvörðunin var illa ígrunduð og undirbúin.

Klúðrið vindur upp á sig nánast daglega. Borgarstjóri er duglegur að vitna í að innkaupastefna borgarinnar heimili ákvarðanir um innkaup á grundvelli mannréttindasjónarmiða. Í gær upplýstist á fundi mannréttindaráðs að framkvæmd þeirra ákvæða stefnunnar hefur aldrei verið útfærð og borgarkerfið telur það taka þrjú ár, enda vandasamt og hugsanlega illframkvæmanlegt innan ramma landslaga. Meirihlutinn hefur með öðrum orðum heldur ekki hugmynd um hvernig á að fylgja reglunum, sem hann vitnar stöðugt í.

Ég stóð í þeirri trú að það ætti að reyna að vinda ofan af þessu máli á borgarstjórnarfundi í gær. Því miður virtist meirihlutinn ekki bera nógu mikla virðingu fyrir alvarleika þess til að svara skýrt hvort ætti að draga samþykktina til baka og setja afgerandi punkt eða finna nýja útfærslu á að sniðganga ísraelskar vörur.

Í annarri atrennu reyndist meirihlutinn aftur illa undirbúinn og ræður ekki við málið. Það er þá ágætt að það er ekki hlutverk hans að beita ríki viðskiptaþvingunum. Nú ættu flokkarnir fjórir að leggja af sína vel meinandi en vanhugsuðu utanríkisstefnu og láta réttum stjórnvöldum eftir að styðja Palestínuríki og gagnrýna mannréttindabrot í Mið-Austurlöndum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×