Viðskipti innlent

Neytendastofa sektar Símann um 1,5 milljón

Sæunn Gísladóttir skrifar
Höfuðstöðvar Símans.
Höfuðstöðvar Símans. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Neytendastofa hefur sektað Símann um 1,5 milljóna stjórnvaldssekt fyrir brot á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Brotin eiga rót að rekja til auglýsingaherferðar Símans um meinta yfirburði Sjónvarps Símans, segir í tilkynningu frá Vodafone.

Í ákvörðun Neytendastofu segir að fullyrðingar Símans um að 70% landsmanna segi Sjónvarp Símans standa framar helsta keppinauti og að 70% landsmanna velji Sjónvarp Símans séu villandi gagnvart neytendum og ósanngjarnar gagnvart keppinautum. Fullyrðingin um að Vodafone hafi slökkt á hliðrænum útsendingum RÚV er einnig sögð óvægin. Slík fullyrðing sé til þess fallin að kasta rýrð á Vodafone enda telur Neytendastofa ekki hægt að halda því fram að Vodafone hafi staðið fyrir því að slökkt hafi verið á hliðrænum útsendingum RÚV.

„Hér hefur fengist staðfest að Síminn hafi kastað rýrð á Vodafone og villt um fyrir neytendum til þess eins að koma vörum sínum á framfæri. Ég er þeirrar skoðunar að farsælla sé að keppa á eigin verðleikum og bendi neytendum einfaldlega á að kynna sér nýlega uppfært viðmót í Vodafone Sjónvarpi og allt það gæðaefni sem þar er að finna,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone í tilkynningu um málið.

Síminn bað Vodafone opinberlega velvirðingar þegar mistökin uppgötvuðust á sínum tíma. Síminn lét gera skoðanakönnun um sjónvarpsþjónustu. Í könnuninni voru þeir sem annað hvort eru með sjónvarp Símans eða sjónvarp Vodafone spurðir: Hvort telur þú að Sjónvarp Símans eða Sjónvarp Vodafone standi almennt framar í sjónvarpsþjónustu. 70,6% svöruðu Síminn. 29,4% Vodafone. Í auglýsingunni sem Neytendastofa ákvarðar um var vísað til þess að 70% landsmanna velji Símann en réttara er að er vísa skýrt til þess að um sé að ræða 70% aðspurðra.

Hér fyrir neðan má lesa ákvörðun Neytendastofu í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×