Viðskipti innlent

Góður gangur hjá félögum Helga

Sæunn Gísladóttir skrifar
Helgi Vilhjálmsson á KFC og Góu-Lindu.
Helgi Vilhjálmsson á KFC og Góu-Lindu. Vísir/GVA
Sala hjá tveimur fyrirtækjum í eigu Helga Vilhjálmssonar, Góu-Lindu og KFC jókst á milli ára og nam hagnaður af rekstri fyrirtækjanna samtals 143 milljónum króna árið 2014.

Rekstrartekjur sælgætisgerðarinnar Góu-Lindu á árinu námu 986 milljónum króna og jukust um tæpar 30 milljónir króna milli ára. Rekstrarhagnaður nam 41 milljón króna og jókst um 14 milljónir króna milli ára. Hagnaður fyrir tekjuskatt tvöfaldaðist milli ára og nam 28 milljónum króna. Hagnaður ársins nam 22,8 milljónum króna og jókst um rúmlega 9 milljónir króna milli ára. Eignir í árslok numu 766 milljónum króna og lækkuð eilítið milli ára. Bókfært eigið fé nam 514 milljónum króna.

Laun framkvæmdastjóra Góu-Lindu 10,6 milljónir

Laun og launatengd gjöld námu 263 milljónum króna á árinu og hækkuðu um tæpar 20 milljónir milli ára þrátt fyrir að stöðugildum fækkaði um þrjú. Laun framkvæmdastjóra námu 10,6 milljónum króna á árinu, samanborið við 9,5 milljónir árið áður. Góa-Linda er í 92% eigu Helga Vilhjálmssonar, ekki var greiddur út arður vegna ársins 2014.

Hagnaður KFC þrefaldaðist milli ára

KFC sem er í 100% eigu Helga Vilhjálmssonar, hagnaðist um 120,5 milljónir króna á árinu. Hagnaðurinn þrefaldaðist milli ára. Bókfært eigið fé í árslok var 455 milljónir króna. Í árslok námu eignir samtals 830 milljónum króna. Rekstrartekjur KFC námu 2,4 milljörðum króna og jukust um 200 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður nam 159 milljónum króna og tæplega þrefaldaðist milli ára. Handbært fé í árslok nam 120 milljónum króna, samanborið við 87 milljónir króna í árslok 2013.

Á árinu störfuðu að meðaltali 172 starfsmenn hjá félaginu og námu launagreiðslur samtals 697,1 milljón króna. Starfsmönnum fjölgaði um 12 á árinu. Laun framkvæmdastjóra námu 11,3 milljónum króna. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 50,0 milljónir króna vegna ársins 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×