Innlent

Myndhöggvarar brutu á rétti Ásmundar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ásmundur Ásmundsson listamaður.
Ásmundur Ásmundsson listamaður. Vísir/Ernir
Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík var óheimilt að miðla upplýsingum um nafn og fjárhæð skuldar Ásmundar Ásmundssonar myndhöggvara í fundargerð síðasta aðalfundar félagsins. Þetta er niðurstaðan í úrskurðar Persónuverndar.

Ásmundi Ásmundssyni var vísað úr Myndhöggvarafélaginu, hér eftir nefnt MHFR, fyrr á þessu ári eftir leynilega atkvæðagreiðslu á aðalfundi félagsins í maí. Hann leigði vinnurými af félaginu en upplýsingar um skuldir hans gagnvart félaginu voru skráðar í fundargerð sem send var félagsmönnum eftir fyrrnefndan aðalfund. Að sögn Ásmundar voru upplýsingar á fundinum aðeins gefnar í formi heildarskuldastöðu félagsins.

„En það sem kemur síðan fram í fundargerðinni, sem send var til allra félagsmanna að aðalfundinum afstöðnum, er í engu samhengi við það sem kom fram á fundinum, því að þar er upplýst um skuldastöðu undirritaðs upp á krónu og hann nafngreindur að auki,“ skrifar Ásmundur í svari til Persónuverndar.

Ásmundur kærði meðferð MHFR á persónuupplýsingum um hann til Persónuverndar.

„Ofsóknir og einelti“

MHFR taldi eðlilegt að upplýsa félagsmenn um útistandandi kröfu á hendur Ásmundi þar sem  félagið ber sjálft ábyrgð á leigusamningi um húsnæðið gagnvart Reykjavíkurborg.

Persónuvernd hafnar þessum rökum.

Sjá einnig: Æfareiðir myndhöggvarar munnhöggvast

Skemmdarverk eða listaverk?Vísir/Jón
„Engu að síður liggur einnig ljóst fyrir að hver félagsmaður er ekki ábyrgur persónulega fyrir leigugreiðslum til Reykjavíkurborgar, heldur framleigir MHFR vinnustofur sínar til félagsmanna á grundvelli leigusamnings. Verði uppi ágreiningur um lögmæti slíks leigusamnings, greiðslur vegna hans eða úrsögn félagsmanna úr félagi á grundvelli ákvæðis í leigusamningi leiðir það engu að síður ekki sjálfkrafa til þess að allir félagsmenn hafi lögmæta hagsmuni af því að fá upplýsingar um þær deilur á meðan á þeim stendur, til dæmis um nafn skuldara eða þá upphæð sem viðkomandi skuldar félaginu þann dag.“

Ásmundi var vísað úr félaginu á aðalfundi eins og fyrr segir ásamt Hannesi Lárussyni en borin var upp nafnlaus tillaga á fundinum sem félagsmenn samþykktu með átta atkvæðum gegn sjö. Ellefu skiluðu auðu. 

„Þetta eru ofsóknir og einelti sem er algjörlega farið úr böndunum,“ sagði Ásmundur í samtali við Fréttablaðið fyrr í sumar en myndlistamennirnir tveir hafa verið gagnrýndir af einhverjum félagsmanna fyrir ósæmilega hegðun og fyrir tjón á munum félagsins.

Atkvæðagreiðslu um frávikningu ekki getið í fundarboðun

„Þetta með ofbeldið og þjófnaðinn eru bara dylgjur og til skammar fyrir félag sem nýtur opinberra styrkja frá borginni,“ segir Ásmundur, en í tillögunni segir að Ásmundur hafi ekki greitt leigu fyrir vinnuaðstöðu sem hann leigir af félaginu og sé því um þjófnað að ræða. Þá segir í tillögunni að Ásmundur og Hannes hafi rústað kaffistofu félagsmanna og lagt hana undir sig með ofbeldi.

Ásmundur hefur leitað lögfræðilegs álit á lögmæti fundarins og niðurstaða þess var að fundurinn hefði verið ólöglegur. Þá hafa sextán félagsmenn sent kröfu til stjórnar MHFR þar sem farið er fram á að samþykktir aðalfundar verði ógildar og nýr fundur boðaður.

Þá hefur Hulda Hákon myndlistarmaður nefnt það að sér þyki óeðlilegt að jafn stór ákvörðun og þessi hafi ekki verið nefnd í fundarboði.


Tengdar fréttir

Æfareiðir myndhöggvarar munnhöggvast

Ásmundur Ásmundsson og Hannes Lárusson myndlistarmenn voru reknir úr Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur. Ásmundur segir um ofsóknir og einelti að ræða. Formaður félagsins segir þá rekna á löglegan hátt.

Myndhöggvurum tekst ekki að höggva á hnútinn

Hannes Lárusson og Ásmundur Ásmundsson myndlistarmenn voru reknir úr Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur eftir að tillaga barst frá Kristni E. Hrafnssyni myndlistarmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×