Viðskipti innlent

Vegagerðin býður út Dettifossveg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá lagningu fyrsta áfanga nýs Dettifossvegar árið 2009.
Frá lagningu fyrsta áfanga nýs Dettifossvegar árið 2009. Mynd/Stöð 2.
Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í þriðja áfanga hins nýja Dettifossvegar. Verkinu skal lokið um mitt næsta sumar og verður þá komið malbik langleiðina milli Ásbyrgis og Hljóðakletta.

Kaflinn sem nú er boðinn út er níu kílómetra langur og liggur frá bænum Tóvegg að vegamótum niður í Vesturdal og Hljóðakletta. Lengi hefur verið kallað eftir vegarbótum á þessari leið enda þurfa ferðamenn að aka eftir niðurgröfnum moldarslóða til að heimsækja þessar náttúruperlur Jökulsárgljúfra.

Þessa dagana er að ljúka öðrum áfanga Dettifossvegar vestan Jökulsár, nyrsta kaflanum, þriggja kílómetra kafla frá þjóðvegi 85 í Kelduhverfi að bænum Tóvegg, sem boðinn var út árið 2014. Að sögn verktakans, Árna Helgasonar, er stefnt að því að leggja klæðningu á kaflann í næstu viku. Verkið hófst í fyrrahaust.

Fyrsti áfanginn, syðsti hluti vegarins, 25 kílómetra kafli frá hringveginum á Mývatnsöræfum og að Dettifossi, var lagður á árunum 2009 til 2011.

Tilboð í þriðja áfangann verða opnuð hjá Vegagerðinni þann  30. júní. Vinna við vegagerð getur þó ekki hafist fyrr en eftir 10. ágúst 2015. Vinna á rösklega og er þess krafist að verktaki ljúki ræsagerð, gerð fyllinga, neðra burðarlags, efnisvinnslu og útlögn neðra hluta efra burðarlags fyrir 31. desember 2015. Verkinu skal svo að fullu lokið 15. júlí 2016.

Þá verður eftir kaflinn um Hólmatungur, milli Dettifoss og Vesturdals, og einnig afleggjarinn niður í Vesturdal, alls um 20 kílómetrar.


Tengdar fréttir

Meira malbik á Dettifossveg

Langþráð vegagerð að frægum ferðamannastöðum á Norðausturlandi, kaflinn frá Ásbyrgi áleiðis að Hljóðaklettum, er að hefjast.

Niðurskurðarhnífur skar Dettifossveg

Bundið slitlag sem bætist við þjóðvegakerfið á þessu ári verður að öllum líkindum það minnsta í nærri fjörutíu ár.

Hálfur Dettifossvegur verri en enginn

Ferðaþjónustuaðilar á norðausturhorni landsins óttast hrun, þegar bara hálfur Dettifossvegur verður opnaður meðfram Jökulsárgljúfrum næsta sumar, og segja að ferðamennirnir muni sleppa Ásbyrgi og byggðunum við norðurströndina.

Meira malbikað frá Mývatni á Kópasker

Framkvæmdir við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg og Uxahryggjaveg verða boðnar út á næstu vikum vegna 1.800 milljóna króna innspýtingar sem ríkisstjórnin samþykkti í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×