Viðskipti innlent

Marple-málið: Verjandi lét vatnið flæða í dómsal

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Verjendateymið í Marple-málinu.
Verjendateymið í Marple-málinu. vísir/gva
Sú mynd sem fólk hefur af dómsölum er oft á tíðum nokkuð þurr og lítið skemmtileg. Málið sem er notað sé flókið og formið hálftilgerðarlegt. Þrátt fyrir það eiga til að gerast skondin atvik í dómsalnum en eitt slíkt átti sér stað í Marple-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Í morgun flutti Halldór Þorsteinn Birgisson, verjandi Skúla Þorvaldssonar, ræðu til varnar honum og að henni lokinni var gert stutt hlé á þinghaldinu.

Er verjendur voru að koma sér aftur fyrir í sætum sínum og gera sig tilbúna fyrir ræðu Ólafs Arnar Svanssonar, verjanda félaganna sem upptökukröfu ákæruvaldsins er beint gegn, rak Sigurður G. Guðjónsson skikkju sína í vatnskönnu sem stóð á borði Gríms Sigurðarsonar, verjanda félagsins Marple holding í málinu, með þeim afleiðingum að vatn flæddi um borðið.

„Þetta er ræðan,“ sagði Grímur og horfði á vatnið renna yfir hana. Grímur tekur til máls síðar í dag. Verðmætum á borð við síma og veski tókst að bjarga en einn verjenda hafði á orði að þarna væri sennilega hægt að finna peningaþvættið sem ákæruvaldið væri að leita að.

Sigurður G. Guðjónsson sagði síðan að þetta væri til marks um að málið væri allt að fara í vaskinn við mikinn hlátur viðstaddra.

Munnlegum málflutningi í Marple-málinu lýkur í dag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×