Innlent

Óttast áhrif nýrrar skýrslu á ístöðulitla menntamálaráðherra

Jakob Bjarnar skrifar
Ragnar Þór varar við nýrri rannsókn og óttast að hún geti orðið til að gera hugmyndasnauðan menntamálaráðherra, sem elskar pappír, staðfastari í vitleysunni en orðið er.
Ragnar Þór varar við nýrri rannsókn og óttast að hún geti orðið til að gera hugmyndasnauðan menntamálaráðherra, sem elskar pappír, staðfastari í vitleysunni en orðið er.
Ragnar Þór Pétursson kennari óttast afleiðingar nýrrar könnunar þar sem tölvur eru teiknaðar upp sem einskonar bölvaldur í kennslustofunum.

„Þetta verður ótvírætt til þess að ístöðulitlir menntamálaráðherrar munu nesta nemendur með rangt veganesti út í lífið vegna þess að það krefst lítils af þeim nema smá nostalgíu og hugmyndaleysis,“ segir Ragnar Þór í samtali við Vísi. Hann beinir spjótum sínum að Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra og yfirvöldum skólamála. Ragnar Þór hefur rannsakað og fjallað um kennsluhætti og nauðsyn þess að þeir séu í takti við tímann. Meðal annars á bloggsíðu sinni.

Menntamálaráðherra hugfanginn af pappír

Í nýrri skýrslu frá OECD kemur fram að tölvunotkun er ekki talin skila nemendum betri árangri heldur þvert á móti hefur haft neikvæð áhrif á námsárangur þeirra. Tölvu- og tæknivæðing í skólum er því ekki talin skila árangri.

Vísir greindi lauslega frá þessum þætti efnis skýrslunnar í morgun.

Ragnar Þór segir þarna ýmislegt í gangi: „Í fyrsta lagi gefur þessi niðurstaða til kynna að menntakerfi hafi víða runnið inn í nýja tíma algjörlega án umhugsunar og stefnu. Sem að flestu leyti á algjörlega við okkar skólakerfi sem starfar undir menntamálaráðherra sem virðist hugfanginn af pappír.“

Ragnar Þór segir að þar sem tækni er notuð markvisst og í ákveðnum og yfirlýstum tilgangi skilar hún árangri. „Kínversk börn sem að meðaltali eru hæst í Pisa ná til dæmis enn meiri árangri í ástralska skólakerfinu en heima í Kína. En ástralska kerfið er kannski það tæknivæddasta í heiminum.“

Myndi ekki þekkja skapandi hugsun þó löðrunguð væri með henni

Þá bendir Ragnar Þór á að skýrsluhöfundar viðurkenni vissulega að þeir mælar sem rannsóknin byggir á eru ekki næmir fyrir margvíslegum árangri sem skólakerfi kunna að vera að ná. „Ég leyfi mér að fullyrða að fæstir frumherjar í tækninotkun á heimsvísu eru að miða á markmið sem OECD kann að mæla. Þess vegna hefur stofnunin tilhneigingu til að hunsa slíkan árangur, alveg eins og Menntamálastofnunin hér á landi, sem myndi ekki þekkja skapandi hugsun þótt hún væri löðrunguð með henni.“

Marinerað í ofbeldi

Það vakti strax athygli þegar niðurstöður Pisa komu út að skólakerfi sardínudósanna voru á uppleið á meðan húmanískari skólakerfi voru á niðurleið, að sögn Ragnars Þórs. „Nýlegar rannsóknir sem gert hafa tilraunir til að gægjast undir yfirborð þeirra skólakerfa sem Pisa hefur upp til skýjanna hafa leitt í ljós ýmislegt misjafnt sem Pisa mælir ekki. Kerfið í Suður-Kóreu er til dæmis marínerað í ofbeldi í öllum sínum myndum. Í Kína er svindl og örvænting landlæg og þrátt fyrir að þar teljist nemendur færastir allra á mælikvarða OECD fullyrða stjórnendur hinna nýju alþjóðlegu stórfyrirtækja í kínversku efnahagslífi að fólkið sem skólakerfið skilar af sér sé meira og minna ónothæft.“

Háskólagráður lítils virði

Nauðsynlegt er að skoða stóru myndina, að mati Ragnars Þórs, að nám sé í einhverju samhengi við samfélagið allt:

„Flest ríki í heiminum hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að það verður ekki unað við menntakerfi í óbreyttri mynd. Á næstu þremur áratugum munu fleiri útskrifast úr menntakerfinu en í allri mannkynssögunni fram að því. Háskólagráður er lítils virði. Rúmlega þriðjungur þeirra starfa sem nú eru til verða horfin þegar núverandi fyrsti bekkur kemur út á vinnumarkaðinn. Þau störf sem eru líklegust til að hverfa eru störf við framleiðslu og þjónustu sem auðvelt er að skipta út fyrir tækni. Þeir sem ná valdi á tækninni fyrir þann tíma eru í góðum málum. Þess vegna hafa stefnumarkendur, ríkisstjórnir og hagsmunaaðilar í Evrópu gert sameiginlegar ályktanir og sett sér stefnu til að tryggja að næsta kynslóð hafi færni sem tryggir velsæld í heimi þar sem þjónustufulltrúar, leigubílstjórar og sjómenn verða ekki lengur til.“

Gott vald á tækninni algjör nauðsyn

Ragnar bendir á að þeir sem eru í minnstri hættu á að úreldast eru þeir sem nota þurfa dómgreind, samskiptafærni og skapandi hugsun í starfi. Þeir þurfa líka að hafa gott vald á tækninni.

„Nemendur ná aldrei valdi á tækninni ef þeir ganga sjálfala. Börn á Íslandi hafa einna mestan aðgang að tækni í heiminum utan skóla en einna minnstan innan skóla. Við erum öfundsverð að því leyti hve áreynslulaust samfélag okkar hefur tileinkað sér tækni. Við erum líka öfundsverð af því að innleiðing tækni í skólakerfið verður sífellt markvissari. En við erum ekki öfundsverð af því hve djúpur þyrnirósarsvefn stefnumarkandi aðila virðist vera og hve ginnkeypt við erum fyrir menntapólitík OECD sem virðist snúast um það fyrst og fremst að búa til ofurskilvirk menntakerfi í anda Sovétríkjanna eða Kína. Það er í raun umhugsunarvert hve auðveldlega þeir sem þykjast aðhyllast fjölbreytileika og frjálslyndi virðast falla í gin stöðlunar og skilvirkni þegar kemur að grundvallarréttindum eins og menntun.“

Eru menn þá að rugla saman formi og innihaldi? Óttast við nýja tíma og tækni? Óttinn við að penninn sé að taka við af blýantinum?

„Það sem er kannski fyrst og fremst í gangi er að þau markmið í skólakerfi sem auðveldast er að mæla eru í sumum kreðsum orðin einu markmið námsins. Vegna þess meðal annars að menntakerfið er nátengt tilfinningalífi fólks gegnum börn þess og ýmsir sem vilja hafa áhrif, til dæmis í pólitískum tilgangi, eiga þarna greiðan aðgang að ástríðu án aðkomu dómgreindar.“

Hugmyndalaus og nostalgískur menntamálaráðherra

Þessar niðurstöður munu þá, ef af líkum lætur, reynast vatn á myllu kölska; afturhaldssamra hugmynda sem menntamálaráðherra vill styðjast við, þá er til kastanna kemur?

„Þetta verður ótvírætt til þess að ístöðulitlir menntamálaráðherrar munu nesta nemendur með rangt veganesti út í lífið vegna þess að það krefst lítils af þeim nema smá nostalgíu og hugmyndaleysis. Við munum samt skaðast af því til lengri tíma. Í Japan eru menn þessi misserin á fullu að reyna að losna undan ægivaldi Pisa með umbótum. Þeir sjá enga aðra leið til að samfélagið sé sjálfbært út þessa öld. En Pisa togar þá alltaf til baka aftur því þegar þeir slaka á ítroðslunni lækka þeir á prófunum þeirra,“ segir Ragnar Þór. Og heldur áfram:

„Kínverskur fræðimaður hefur sagt að ef Vesturlönd væru ekki að neyða Pisa-fóðrið í sín eigin börn myndi hann halda að þessi áróður OECD um að menntakerfið Í Kína væri til fyrirmyndar væri lymskuleg tilraun til að hindra frekari efnahagsuppgang.“

Landsprófið bölvaða

Ragnar er ómyrkur í máli, enda þetta honum hjartans mál en segir að það megi draga þetta saman í stuttu mál:

„Annars má draga þetta saman í stuttu máli: Það er fullkomlega eðlilegt að nýjar áherslur í skólastarfi sýni slakan árangur í fyrstu, bæði vegna þess að menn eru að sækja á ný mið og eru enn að læra til verka en líka vegna þess að mælarnir sem notaðir eru eru að einhverju leyti úreltir. Meira að segja landsprófið alræmda og bölvaða sýndi að skólar væru bara að skila 6,9% nemenda undirbúnum fyrir framhaldsnám fyrstu fimm árin sem það var notað. Svo lærðu menn á landsprófið og urðu betri í því. Þar til þeir stóðu uppi tuttugu árum seinna og áttuðu sig á því að þeir kunnu landspróf upp á sína tíu fingur en að nú yrðu menn að losna undan áhrifum þess.“


Tengdar fréttir

Staðan í dag óásættanleg að mati Illuga

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hóf átak í dag til að efla læsi með því að undirrita sáttmála þar um við Reykjavíkurborg. Illugi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu sáttmálann í Borgarbókasafninu ásamt Sigríði Björk Einarsdóttur stjórnarmanni SAMFOK. Undirritunin markar upphaf átaks um allt land sem miðar að því að efla læsi allra barna á aldrinum 2-16 ára. Hann segir mikið í húfi að allir taki höndum saman í átakinu, engin ein aðferð sé betri en önnur.

Tölvur í kennslustofum geti haft neikvæð áhrif

Tölvunotkun í skólum er ekki talin skila nemendum betri árangri heldur þvert á móti hefur haft neikvæð áhrif á námsárangur þeirra, að því er fram kemur í nýrri skýrslu OECD ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×