Innlent

Engar tollalækkanir á makríl frá ESB

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Fundir með ráðamönnum ESB hafa leitt í ljós að tollaívilnanir á makríl innan ESB verða ekki að veruleika. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir að miðað við fyrstu viðbrögð sé lítil eða engin von um tollalækkanir. Ný skýrsla Byggðastofnunnar leiðir í ljós að tekjutap sjómanna og landverkafólks vegna viðskiptabanns Rússa getur verið á bilinu frá 990 milljónum upp í tvo og hálfan milljarð króna samtals á ári, miðað við óbreytt ástand á mörkuðum.

Sigurður Ingi Jóhannsson segir tekjutapið vissulega alvarleg tíðindi þótt verstu spár frá því um miðjan ágúst virðist ekki ætla að ganga eftir. Hann segir að þetta sé vissulega spá og það þurfi að fylgja málinu eftir. Menn séu að leita að nýjum mörkuðum og vonandi finnist þeir.

Einstaklingar og sveitarfélög tapa

Viðskiptabannið kemur verst við tíu byggðarlög á Íslandi - Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafjörð, Neskaupstað, Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð, Höfn, Vestmannaeyjar, Snæfellsbæ og Garð. Á móti telur stofnunin að bannið hafi lítil eða engin áhrif á 23 byggðarlög,  þar á meðal Reykjavík, Hafnarfjörð og Akureyri.

Talið er að tekjutap hvers landverkamanns geti orðið á bilinu 860 til 1870 þúsund.

Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir að tekjutapið verði um átján til fjörutíu prósent í landvinnslu en þótt skýrslan boði að störfum í bræðslu fjölgi um 200, muni það aðallega nýtast körlum.

Þá er tekjutap sveitarsjóða áætlað á bilinu 143 til 364 milljónir króna vegna lægri útsvarstekna og tekjutap vegna lægri aflagjalda er áætlað allt að 43 milljónum. Drífa bendir á að það sé slæmt þegar tekjur séu að dragast saman hjá einstaklingunum og þeir þurfi enn fremur en áður að reiða sig á þjónustu sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×