Heilsa

Mamma, ég borða ekki blóm

rikka skrifar
Vísir/Getty
Nú veit ég ekki hvernig þetta er á þínu heimili, kæri lesandi, en á flestum þeim heimilum sem ég umgengst og eru með börn á vissum aldri þá er þetta alltaf sama sagan, þau borða ekki grænmetið sitt.

Mikið óskaplega ertu heppið, foreldri gott, ef þetta er ekki baráttumál á þínu heimili og samviskubitið sefað eftir hverja kvöldmáltíð. Sonur vinkonu ­minnar súmmaði upp grænmetisát í augum barnsins í einni setningu þegar honum var rétt brokkólíbiti til átu núna um daginn: „Mamma, ég borða ekki blóm.“

Frá því að barnið fór að rannsaka heiminn hefur því verið bannað að borða blóm og gras úti í náttúrunni, af hverju ætti það því að borða brokkólí sí svona?

Þegar börnin eru ung þá er hægt að plata ýmislegt ofan í þau með álitlegu yfirskini en þegar þau eru komin aðeins til vits og ára eru þau farin að hafa skoðun á því sem þau raða í sig og þá vandast málin.

Auðveldast í heimi væri að gefast hreinlega upp og treysta því að þau borði grænmetið sitt í skólanum eða þegar þú sérð ekki til en ætli það sé ekki afar ólíklegt og frekar óskhyggja en nokkuð annað. Við skulum nú líta á nokkrar hugmyndir sem gætu komið að góðum notum á þínu heimili.

Haltu áfram að gabba

Já, plataðu börnin þín. Maukaðu niður grænmetið í sósur og notaðu til að mynda með fisknum, í lasagna eða súpuna. Persónulega bæti ég alltaf linsubaunum í kjötbollurnar en það er líka til fullt af uppskriftum á alnetinu sem gefa þér frábærar hugmyndir um hvernig þú getur gabbað grænmeti ofan í börnin þín. Ein af mínum eftirlætis er Sneaky Mom og svo er hún Ebba okkar Guðmundsdóttir búin að ná snilldartökum á þessari grein.

Þriggja bita reglan

Fáðu barnið allavega til þess að taka þrjá bita af grænmeti, það er betra en ekki neitt. Fyllist þau hreinlega viðbjóði gagnvart tilteknu grænmeti í sífellu, þá má bjóða þeim að taka að minnsta kosti einn bita.

Eldið saman

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Fáðu þau með þér í eldamennskuna um leið og þau geta valdið sleif. Þannig kynnast þau matnum og hann verður þeim nærtækari.

Valið er þitt

Skerðu niður nokkrar týpur af grænmeti og settu upp sem lítið hlaðborð í stað þess að blanda öllu saman í salatskál og hella olíu yfir. Börnin velja yfirleitt einfaldleikann og eru líklegri til að velja sér eitt grænmeti í stað blandaðs salats.


Tengdar fréttir

Gleði og jákvæðni er góður valkostur

Hvernig stendur á því að sumir eru alltaf glaðir og jákvæðir? Borða þeir eitthvað annað en við hin eða er þeim þetta meðfætt? Getur neikvæður einstaklingur vanið sig á það að vera jákvæður?

Það er í lagi að vera leiður

Það þurfa ekki allir dagar að vera skemmtilegir en það er þó alltaf hægt að gera daginn örlítið skemmtilegri. Hér er Rikka með nokkur góð ráð til að gera daginn betri.

Að stökkva yfir helvítisgjána

Óvenjuleg og ávanabindandi saga af lífsbaráttu í Napólí á seinni hluta síðustu aldar, sögð af hreinskilni og mikilli leikni.

Hugaðu að heilanum

Með því að læra nýja færni og auka þroska eykst virkni tauga í heilanum, við verðum þar af leiðandi örlítið greindari en áður






Fleiri fréttir

Sjá meira


×