Viðskipti innlent

Afkoma þriggja stærstu sveitarfélaga versnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Afkoma Reykjavikurborgar er þremur milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Afkoma Reykjavikurborgar er þremur milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Afkoma stærstu sveitarfélaga landsins, það er Reykjavikurborgar, Hafnafjarðar og Kópavogs, virðist nú fara versnandi. Greiningadeild Arion banka bendir á að uppgjör síðasta árs og nýlegar tölur um afkomu þriggja stærstu sveitarfélaga landsins beri þess glöggt vitni.

Greiningadeild bendir á að í þessum uppgjörum hafi versnandi afkoma komið skýrt í ljós, gjöld hafi vaxið umfram tekjur og rekstrarniðurstaða verið lakari en á sama tímabili í fyrra og jafnvel lakari en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir.

Greiningadeild bendir á að launakostnaður vegi þyngst í auknum útgjöldum. Í tilviki Kópavogsbæjar hafi launakostnaður til að mynda aukist um rúm 14% á fyrri hluta ársins samanborið við sama tímabil 2014 á meðan tekjur sveitarfélagsins jukust um 5%.

Laun og launatengd gjöld eru um helmingur af heildarrekstrarkostnaði sveitarfélaga á Íslandi. Greiningadeild segir að versnandi afkoma komi alls ekki á óvart og sé í raun framhald af þróun síðastliðins árs þar sem veruleg sveifla hafi orðið til hins verra í afkomu íslenskra sveitarfélaga eftir mikinn rekstrarbata árin þar á undan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×