Viðskipti innlent

Segja afnám tolla mikilvægt skref

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Stjórn Samtaka verslunar og þjónustu fagnar því að gert sé ráð fyrir afnámi tolla í áföngum í fjárlagafrumvarpinu. Fyrst með afnámi tolla á fötum og skóm um næstu áramót og svo öðrum vörum en matvörum um áramótin 2016-2017.

„SVÞ hefur um langa hríð bent á þá óhagstæðu samkeppnisstöðu sem greinin býr við og hafa tollar vegið þungt í því sambandi. Afnám vörugjalda um s.l. áramót var fyrsta alvöruskrefið sem stigið hefur verið, a.m.k. um árabil, í því skyni að jafna samkeppnisstöðu greinarinnar.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá SVÞ.

Þar segir að þau áform sem birtist í fjárlagafrumvarpinu sýni í verki vilja stjórnvalda til að halda áfram á sömu braut og létta álögum af versluninni.

„Neytendur munu þó fyrst og síðast njóta þessara breytinga. Það má ekki gleymast í þessu sambandi að íslensk verslun býr að verulegu leyti við mikla erlenda samkeppni. Sú sam-keppni mun væntanlega aðeins aukast samfara aukinni netverslun. Afnám vörugjaldanna hafði veruleg áhrif til lækkunar neysluverðsvísitölu og það sama mun gerast með afnámi tolla.“

Samtökin telja einnig að nauðsynlegt sé að færa föt og skó einnig í neðra þrep virðisaukaskatts. Það skref þurfi að taka svo að íslensk fataverslun geti keppt á jafnréttisgrundvelli við erlenda fataverslun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×