Viðskipti innlent

Nauðsynlegt að verjast ásókn í háa vexti á Íslandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Seðlabankinn segir nauðsynlegt að grípa til ráðstafana samhliða afnámi hafta til að koma í veg fyrir að erlendir fjárfestar sæki í miklum mæli í háa vexti á Íslandi. En mikill munur er á stýrivöxtum hér og í nánast öllum öðrum vestrænum ríkjum.

Eitt af því sem varð til þess að íslenskt efnahagslíf hrundi með braki og brestum í október 2008 var gífurleg ásókn fjárfesta í háa vexti á Íslandi og hægt var að hagnast mikið á þeim vaxtamun sem var á milli Íslands og annarra landa.

Eftir hrun situr þjóðarbúið uppi með margumtalaða snjóhengju erlendra krónueigna sem er hluti vandans við að afnema gjaldeyrishöftin. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 0,5 prósentustig í gær og eru þeir nú 5,5 prósent á sama tíma og þeir eru engir eða rétt fyrir núllinu í flestum vestrænum ríkjum.

Alþingi samþykkti nánast einróma í vor áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta en eins og vaxtaumhverfið er nú er hætta á að sami leikurinn endurtaki sig og fjárfestar sæki í þennan mikla vaxtamun með tilheyrandi innstreymi erlends fjármagns.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri kom inn á þennan vanda á kynningarfundi í Seðlabankanum í gær og minnti á að nú þegar hefðu verið stigin ýmis skref við undirbúning á afnámi hafta og í gildi væru reglur sem ættu að takmarka innflæði erlends fjármagns.

Már sagði að auk þeirra reglna hefði verið rætt að setja gjald, eða bindiskyldu á fjármagnshreyfingar.

„Sem myndi hafa áhrif á vaxtamun gagnvart útlöndum, virkum vaxtamun gagnvart útlöndum, og gæti þannig aukið bitið í peningastefnunni. Komið í veg fyrir það að ef við þurfum að hækka vexti af innlendum ástæðum, að það sogi þá inn of mikið fjármagn,“ sagði Már.

Næstu skref áður en fjármagnshreyfingar yrðu alfarið gefnar fjálsar hjá innlendum aðilum væru að setja á regluverk um gjald eða skatt á fjármálahreyfingar. Hins vegar séu margir ókostir við að þessu markmiði verði náð með skattlagningu þar sem Seðlabankinn hafi ekki skattlagningarvaldið heldur Alþingi og stýritæki sem þetta þurfi að vera sveigjanlegt.

„Mun þetta eyða öllum vaxtamun? Það er akkúrat það sem felst í því að vera með sveigjanlegt tæki. Það ræðst af aðstæðum. Við getum alveg hugsað okkur aðstæður þar sem það er talið nauðsynlegt að eyja öllum vaxtamun um hríð. Það verður að ráðast af því hvað er að gerast í þjóðarbúskapnum,  hvað við þurfum  varðandi aðhald peningastefnunnar og hvernig fjármálastöðugleikamatið er,“ sagði seðlabankastjóri.

Almennt ráðist þetta hins vegar ekki bara af Seðlabankanum heldur stefnumótun stjórnvalda og hvernig þau sjái þátttöku Íslands á almennum fjármagnsmarkaði og frjálsum fjármagnshreyfingum til lengdar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×