Viðskipti innlent

Starfsmenn Símans fái kauprétt á hlutabréfum í fyrirtækinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Höfuðstöðvar Símans.
Höfuðstöðvar Símans. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Stjórn Símans mun leggja til á næsta hluthafafundi að starfsmenn Símans fái tækifæri til þess að eignast hlut í Símanum eftir að hann fer á markað. Stefnt er að skráningu Símans á Aðalmarkað Nasdaq Iceland í haust.

Samkvæmt tilkynningu frá Símanu munu starfsmenn Símans geta fest sér hlutabréf og kosið að innleysa þau að ári eða framlengja kaupréttinn til allt að fimm ára verði tillagan samþykkt.

Valréttaráætlunin mun ná til allra fastráðinna starfsmanna Símans hf. og dótturfélaga annarra en Mílu. Starfsmenn geta á þessum fimm árum tryggt sér bréf fyrir allt að sex hundruð þúsund krónur árlega, í samræmi við heimild í skattalögum. Starfsmenn Mílu eru undanskildir þar sem samkomulag við Samkeppniseftirlitið tryggir rekstrarlegt sjálfstæði Mílu ehf. á allan hátt.

„Valrétturinn á að auka virði félagsins til lengri tíma litið“
Orri Hauksson, forstjóri Símans.Vísir/Vilhelm Gunnarsson
„Markmiðið með valréttaráætluninni er að samþætta hagsmuni starfsmanna samstæðunnar við langtímamarkmið Símans, auka tryggð starfsfólks og langtímahugsun. Gangi félaginu fjárhagslega vel má vænta þess að verð hlutabréfa hækki og munu starfsmennirnir þá njóta þess,“ segir Orri Hauksson forstjóri Símans um tillögu stjórnarinnar: „Með fimm ára fyrirkomulaginu er girt fyrir áhættusækni til skamms tíma. Valrétturinn á að auka virði fyrirtækisins til lengri tíma litið og gera það að eftirsóttari fjárfestingu og framúrskarandi vinnustað.“

Fyrr í dag var tilkynnt um að hópur erlendra og innlendra fjárfesta hefði keypt 5% hlut í Símanum af Arion banka. Stefnt er að skráningu Símans í kauphöll í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×