Viðskipti innlent

Iðnaðarráðherra tekur undir gagnrýni forstjóra Epal á Isavia

Birgir Olgeirsson skrifar
Eyjólfur Pálsson, forstjóri Epal, segir forsvarsmenn Isavia, sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi, hægt og rólega vera að átta sig á því að þeir gerðu mistök með því að halda ekki íslenskri hönnun í verslunarrými Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þetta sagði Eyjólfur í umræðuþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Epal rak verslun í flugstöðinni í átta ár þar sem fyrirtækið seldi íslenska hönnun samhliða erlendri merkjavöru. Þegar verslunarrými í flugstöðinni var boðið út í fyrra sótti fyrirtækið um að vera áfram þar með verslun en fékk ekki.

Eyjólfur sagði fyrirtækið hafa fengið tilkynningu um ákvörðun Isavia í gegnum tölvpóst klukkutíma áður en blaðamannafundur hófst þar sem tilkynnt var hvaða fyrirtæki fengu verslunarrými í flugstöðinni.

Urðu undir

„Við urðum undir. Það voru aðrir valdir í plássið en það var enginn valinn til að sinna íslenskri hönnun. Henni var bara hent út,“ sagði Eyjólfur í Sprengisandi en tók fram að ýmsir smærri aðilar selji íslenska hönnun í flugstöðinni en ekki í eins stórum stíl og Epal sem rekur þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu.

„Náttúrlega fáránlegt“

„Þetta er náttúrlega fáránlegt og ég held að þeir hjá Isavia séu búnir að uppgötva að þetta voru stór mistök hjá þeim. Ég held að þeir séu búnir að uppgötva að það verður að selja íslenska hönnun,“ sagði Eyjólfur og tók fram að málið snúist ekki um að Epal fái að selja íslenska hönnun í flugstöðinni heldur að það verði einfaldlega boðið upp á slíka hönnun, sama hvaða aðili gerir það.

Hann á von á því að Isavia gerir breytingar á þessu fyrirkomulagi á næstunni en hann sagðist hafa rætt þetta mál við forsvarsmenn opinbera fyrirtækisins.

Ráðherra tekur undir hvert orð Eyjólfs

Þessi ummæli hans hafa nú þegar vakið talsverða athygli og hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra vakið athygli á þeim á Facebook-síðu sinni en þar segist hún taka undir hvert orð Eyjólfs. „Það verður athyglisvert að sjá framhaldið í flugstöðinni - mér fannst Eyjólfur vera að boða fréttir í þeim efnum“



Tek undir hvert orð hjá Eyjólfi og það var fróðlegt að hlusta á viðtalið við hann. Það verður athyglisvert að sjá framhaldið í flugstöðinni - mér fannst Eyjólfur vera að boða fréttir í þeim efnum

Posted by Ragnheiður Elín Árnadóttir on Sunday, August 23, 2015

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×