Viðskipti innlent

SÍA II kaupir 35 prósenta hlut í Kynnisferðum

Atli Ísleifsson skrifar
Kynnisferðir var stofnað 1968 og starfa þar rúmlega þrjú hundruð starfsmenn. Stærsti hluti rekstrarins er undir merkjum Reykjavík Excursions.
Kynnisferðir var stofnað 1968 og starfa þar rúmlega þrjú hundruð starfsmenn. Stærsti hluti rekstrarins er undir merkjum Reykjavík Excursions. Vísir/Ernir
SÍA II, framtakssjóður í rekstri Stefnis, hefur gengið frá kaupum á 35 prósenta hlut í Kynnisferðum. Seljandi er fjárfestingafyrirtækið Alfa hf.

Í ­fréttatilkynningu segir að samhliða kaupunum komi Steinn Logi Björnsson, forstjóri flugfélagsins Bluebird, og Benedikt Ólafsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni, inn í stjórn félagsins.

Benedikt Ólafsson segir ferðaþjónustu á Íslandi vera í miklum vexti og sé orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. „Kynnisferðir eru leiðandi fyrirtæki á sínum markaði og við erum mjög ánægðir með að hafa klárað fjárfestingu í félaginu. Við sjáum frekari tækifæri í rekstri þess á næstu árum og hlökkum til að vinna með öðrum hluthöfum og stjórnendum að framgangi þess.“

Kristján Daníelsson, forstjóri Kynnisferða, segir rekstur Kynnisferða hafa tekið miklum breytingum á liðnum árum og hafi félagið ráðist í umtalsverðar fjárfestingar til að mæta vexti í ferðaþjónustu á Íslandi. „Við munum halda áfram að stækka og efla félagið á komandi árum og  töldum því rétt að fá inn nýja hluthafa í félagið á þessum tímapunkti. Við fögnum aðkomu nýrra fjárfesta og teljum að innkoma þeirra muni styrkja félagið verulega til framtíðar.“

Kynnisferðir var stofnað 1968 og starfa þar rúmlega þrjú hundruð starfsmenn.  Stærsti hluti rekstrarins er undir merkjum Reykjavík Excursions.

SÍA II er framtakssjóður í rekstri Stefnis hf. Hluthafar SÍA II samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Sjóðir á vegum Stefnis hafa fjárfest fyrir yfir 40 milljarða króna í óskráðum félögum frá árinu 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×