Viðskipti innlent

Gefur lítið fyrir svör Landsbankans

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Bankaráð Landsbankans hafnaði í dag beiðni Vestmannaeyjabæjar um boðun hluthafafundar til að ræða byggingu nýrra höfuðstöðva. Bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar gefur lítið fyrir svör bankans og segir hann sneiða hjá því að svara spurningum sveitarfélagsins um málið.

Vestmannaeyjabær eignaðist lítinn hlut í Landsbankanum við sameiningu bankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja í mars. Í bréfi sem bærinn sendi bankaráði Landsbankans 29. júlí síðastliðinn var annars vegar farið fram á gögn sem tengjast fyrirhuguðum framkvæmdum bankans við nýjar höfuðstöðvar hans í miðbæ Reykjavíkur. Hins vegar var óskað eftir hluthafafundi hjá bankanum til að fara yfir málið.

Landsbankinn svaraði bréfi Vestmannaeyjabæjar í gær. Varðandi fyrra atriðið telur bankinn ekki vera forsendur fyrir því að verða við ósk einstakra hluthafa um sérstakan aðgang að gögnum um málið. Um seinna atriðið vísar bankinn til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir séu til skoðunar innan bankans og hann hyggist gera grein fyrir afstöðu sinni áður en langt um líður. Að svo komnu máli sé ekki ástæða til eða tímabært að fjalla um fyrirhugaðar framkvæmdir á sérstökum hluthafafundi.

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum gefur lítið fyrir svör bankans og segir hann sneiða hjá því að svara spurningum sveitarfélagsins um hvernig bankinn komst að þeirri niðurstöðu að byggja höfuðstöðvar á dýrustu lóð á landinu.

„Þá tel ég bara eðlilegast að þessi banki okkar landsmanna birti einfaldlega öll gögn þessu tengd á vefsíðu sinni og svari þessum spurningum sem til þeirra hafi verið beint og geri þetta opinbert fyrir alla eigendur sem eru landsmenn allir,“ segir Elliði.


Tengdar fréttir

Borgaryfirvöld vilja að nýjar höfuðstöðvar rísi á Hörpureitnum

Formaður borgarráðs Reykjavíkur segir ekki eftirsóknarvert að Hörpureiturinn standi tómur um ókomna tíð, verði fallið frá áformum um að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans á svæðinu. Borgin vilji sjá nýjar höfuðstöðvar rísa á reitnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×