Viðskipti innlent

Óhagstætt að leigja í Reykjavík samanborið við nágrannaborgir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Óhagstætt er að leigja í Reykjavík.
Óhagstætt er að leigja í Reykjavík. vísir/vilhelm
Leiguverð íbúðarhúsnæðis hefur fylgt þróun söluverðs náið síðustu fjögur árin eða allt frá því að farið var að mæla vísitölu leiguverðs. Þetta kemur fram í nýútkominni Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í Hagsjánni er einnig borið saman hvort það borgi sig að leigja íbúð eða kaupa. Til þess stillir deildin markaðverði eignarinnar upp á móti ársleigu reiknað á fermetra. Með því fæst hlutfall sem kallað er „price to rent ratio“.

Þumalputtareglan segir að hlutfallið undir fimmtán sé hagstæðara að kaupa. Sé það á lokaða bilinu 16-20 borgar það sig að kaupa ef ætlunin er að eiga eignina til langs tíma en fari hlutfallið yfir tuttugu er réttast að leigja. Sem stendur er hlutfallið í einfölduðu dæmi þrettán og því tiltölulega óhagstætt að leigja um þessar mundir. Til að hlutfallið nái tuttugu, og það verði hagstætt að leigja, þarf leiguverð að lækka um þriðjung.

Sé Reykjavík borin saman við aðrar borgir á Norðurlöndunum sést að hlutfallið er áberandi lægra hér heldur en annarsstaðar. Í Stokkhólmi, Helsinki, Osló, Bergen og Gautaborg er til að mynda mun hagstæðara að leigja en hér.

Sú breyting hefur orðið á leigumarkaði síðustu misseri að fyrirtæki hafa í auknum mæli keypt íbúðir til útleigu. Sé litið á síðustu tæpu tíu ár hafa tæplega 2.000 íbúðir einstaklinga verið seldar fyrirtækjum.

Hagsjána í heild sinni má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×