Viðskipti innlent

Heimsótti Bessastaði á tíu milljóna Volvo: Hver er kínverski fjárfestirinn Li Shufu?

Bjarki Ármannsson skrifar
Li Shufu er einn ríkasti maður Kína.
Li Shufu er einn ríkasti maður Kína. Vísir/EPA
Greint var frá því í síðustu viku að kínverska fjárfestingarfélagið Geely Group hefði keypt hlut í íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International fyrir rúmlega sex milljarða íslenskra króna. Samkvæmt heimildum fréttastofu eignast kínverska félagið um þriðjungshlut í fyrirtækinu.

Li Shufu, stofnandi og stjórnarformaður Geely Group, er um margt áhugaverður. Hann er einn ríkasti maður Kína og vakti mikla athygli utan heimalandsins árið 2010 þegar hann keypti sænska bílaframleiðandann Volvo.

Li var viðstaddur undirritun samninga við CRI í Hörpu á dögunum.Vísir/GVA
Yrkir ljóð og birtir á vefsíðu sinni

Að því er tímaritið The Economist greinir frá, þykir Li mjög jarðbundinn þrátt fyrir að eignir hans séu metnar á nærri þrjú hundruð milljarða íslenskra króna. Hann gæti hófsemi í klæðaburði og búi í látlausri íbúð í Peking. Hann þyki ekki sérvitur en hafi þó mikið gaman að því að yrkja ljóð og ku hann hafa birt tugi ljóða á vefsíðu sinni.

Li hefur líkt sér við bandaríska bílaframleiðandann Henry Ford og þeir eiga það vissulega sameiginlegt að hafa alist upp í sveit en snemma uppgötvað áhuga sinn á verkfræði og viðskiptum. Li þótti snemma athafnasamur en verðlaun sem honum hlotnaðist við útskrift úr skóla notaði hann til að kaupa reiðhjól og gamla myndavél sem hann notaði til að taka myndir af ferðamönnum sem heimsóttu heimaslóðir hans.

Hann lauk meistaragráðu í verkfræði á níunda áratugnum og á þeim tíunda hóf hann að framleiða mótorhjól og síðar bíla. Hann stofnaði Geely, sem þýðir „heppinn“ á mandarín kínversku, og fór með það á markað árið 2005.

Li heimsótti Bessastaði í heimsókn sinni til Íslands.Mynd/Volvo á Íslandi / Brimborg
Volvo eins og „tígrisdýr í fjöllunum“

Tímasetningin hefði vart getað verið betri. Bandaríska bílaborgin Detroit kom mjög illa út úr efnahagshruninu árið 2008 en um svipað leyti fór bílasalan hjá Geely á flug. Árið 2010 tók hann svo stórt skref upp á við þegar hann festi kaup á Volvo fyrir um 240 milljarða íslenskra króna. Li hefur alltaf sagst vilja styðja við „sjálfstæði“ sænska fyrirtækisins.

„Þetta er eins og tígrisdýr í fjöllunum,“ hefur tímaritið Forbes eftir Li um Volvo. „Það á ekki að halda því föngnu í dýragarði.“

Í Íslandsheimsókn Li í síðustu viku þótti við hæfi að hann keyrði um á Volvo og lánaði bílaumboðið Brimborg honum nýjan Volvo XC90 sem meðal annars var notaður til að heimsækja Forseta Íslands á Bessastaði. 

Á blaðamannafundi í Hörpu í síðustu viku var tilkynnt um kaupin á hlut í CRI og sagðist Li við það tilefni vera mjög spenntur fyrir því að fá að vinna með íslenska fyrirtækinu.

„Geely hefur skuldbundið sig til að ná markmiðum til lengri tíma um að draga alveg úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda með fjölbreyttum tækninýjungum, til dæmis endurnýjanlegu metanóli sem orkugjafa á bifreiðar,“ sagði Li. „Þessi fjárfesting mun byggja á þeirri metanóltækni sem við búum yfir í dag sem gerir okkur auðveldara að taka upp nýja tækni til að efla þessa starfsemi í Kína.“


Tengdar fréttir

Kínverjar kaupa þriðjungshlut í CRI

Kínverska fjárfestingarfélagið Geely Group hefur keypt hlut í Carbon Recycling International fyrir 45,5 milljónir dollara, eða sex milljarða króna. Hyggjast nýta tækni félagsins í bílaframleiðslu og til að draga úr mengun. Eignast þriðjungshlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×