Viðskipti innlent

Lítill hluti tekna Color Run rennur til góðgerðamála

ingvar haraldsson skrifar
Davíð Lúther Sigurðsson, framkvæmdastjóri Color Run, segir engan verða ríkan af skipulagningu hlaupsins.
Davíð Lúther Sigurðsson, framkvæmdastjóri Color Run, segir engan verða ríkan af skipulagningu hlaupsins. vísir/andri marínó
Lítill hluti tugmilljóna tekna The Color Run sem fór fram um helgina rennur til góðgerðamála eða fimm milljónir króna. Stundin greindi fyrst frá málinu.

Um 8500 manns voru skráðir til leiks í hlaupinu fyrir utan börn yngri en níu ára sem ekki greiddu skráningargjald. Fjórtán ára og eldri greiddu 6499 krónur fyrir þátttöku í hlaupinu en þeir sem eru á aldrinum níu til þrettán ára greiddu 3499 krónur fyrir þátttökuna. Gróflega má áætla að tekjur af skráningargjaldi hafi verið á bilinu 30 til 55 milljónir. Þar að auki var Alvogen aðal bakhjarl keppninnar auk þess að Nýherji, Brooks, Bai og Saffran styrktu keppnina.

Davíð Lúther Sigurðsson, framkvæmdastjóri hlaupsins, segir það hafa legið fyrir frá því í haust að fimm milljónum yrði varið til góðgerðamála óháð því hve miklar tekjur af hlaupinu yrðu.

Milljónirnar fimm runnu til Unicef, Rauða krossins og Íþróttasambands fatlaðra sem Davíð segir að séu mjög ánægð með framtakið. Þá hafi keppendur þar að auki verið hvattir til að senda SMS skilaboð til að styrkja góð málefni.

Segist ekki verða ríkur af hlaupinu

Davíð segir því að honum sárni umræða um hvernig tekjur af hlaupinu skiptist. „Það var gríðarlegur kostnaður við hlaupið og þess vegna verður maður svolítið pirraður þegar fólk heldur að maður sé orðinn ríkur,“ segir Davíð.

„Það verður enginn ríkur af þessu. Það er gífurlegur kostnaður sem við þurfum að greiða í starfsmannakostnað, hlið, listamenn, litapúðri, leyfi til fyrirtækisins úti, flutninga á alls konar tækjum og tólum að utan í gámum,“ segir hann.  Þess utan hafi orkudrykkur, þvottaefni rásnúmer keppnisbolur litapoki verið innifalið í skráningargjaldinu.

Davíð segist ekki vita hvenær uppgjöri á hlaupinu ljúki, þó hann segist vongóður um að það hafi staðið undir sér. „Við ætlum að vona það og það var allavega stefnan og það sagði skjalið okkar í framkvæmdunum.“



Uppfært kl. 17.20.

Í fréttinni stóð að áður hefði komið fram að ágóði hlaupsins ætti að mestu leyti að renna til góðgerðarmála. Það var ekki rétt.


Tengdar fréttir

Styðja við réttindi barna

Rauði krossinn, UNICEF og Íþróttasamband fatlaðra hafa hlotið styrk úr nýjum samfélagssjóði The Color Run og lyfjafyrirtækisins Alvogen sem nýverið var stofnaður til stuðnings réttindum og velferð barna.

Hlaupa fyrir UNICEF

Atli Fannar, Berglind Festival, Sunna Ben, Magga Maack, Gunni Hans og Lóa í FM Belfast taka þátt í litagleði með UNICEF á Íslandi í tengslum við The Color Run.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×