Viðskipti innlent

Segja mikilvægt að koma á virkri samkeppni á mjólkurvörumarkaði

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Samtök verslunar og þjónustu segjast fagna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi. Þau segja skýrslu endurspegla á margan hátt gagnrýni sem SVÞ hafa haft fram á að færa undanfarin ár varðandi íslenska landbúnaðarkerfið.

Samtökin segja að mikilvægt sé að koma á virkri samkeppni varðandi markað með mjólkurvörur. Einnig að starfsemi fyrirtækja á þessu sviði verði veitt samkeppnislegt aðhald með því að vera undiropin ákvæðum samkeppnislaga.

„SVÞ telja það afar óheppilegt að löggjafinn undanþiggi einn hagsmunahóp ákvæðum samkeppnislaga á meðan önnur starfsemi hér á landi þrífst undir ströngu eftirliti samkeppnisyfirvalda. Að mati SVÞ er hér um að ræða sérhagsmunagæslu stjórnvalda gagnvart hinu innlenda landbúnaðarkerfi sem eingöngu þjónar takmörkuðum hópi afurðarstöðva á kostnað heildarhagsmuna neytenda og gengur um leið gegn markmiði samkeppnislaga.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu.

Samtökin leggja sérstaka áherslu á að stjórnvöld taki til skoðunar að afnema hið fyrsta „undanþágur mjólkurvinnslufyrirtækja frá samkeppnislögum sem samtökin telja vera hinn mesta skaðvald.“


Tengdar fréttir

Kerfið hefur kostað neytendur milljarða

Í skýrslu um mjólkurvöruframleiðslu er lögð til lækkun á innflutningstollum til að skila ábata til neytenda. Bændasamtökin eru efins um að tollalækkun skili sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×