Viðskipti innlent

Actavis plc verður Allergan plc

Sameinað fyrirtæki er nú orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi með um 30.000 starfsmenn í 100 löndum.
Sameinað fyrirtæki er nú orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi með um 30.000 starfsmenn í 100 löndum. vísir
Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, tilkynnti í dag að fyrirtækið hefur nú formlega tekið upp nafnið Allergan plc og hefjast viðskipti undir nýju auðkenni, AGN, í kauphöllinni í New York í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Nafnabreytingin var samþykkt á hluthafafundi félagsins þann 5. júní sl. í kjölfar kaupa Actavis á Allergan í mars sl. Sameinað fyrirtæki er nú orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi með um 30.000 starfsmenn í 100 löndum, með áherslu á frumlyf, samheitalyf og líftæknilyf.

Einungis er um að ræða breytingu á nafni móðurfélagsins en starfsemin á Íslandi verður óbreytt undir nafni og merki Actavis enn um sinn. Hins vegar er nú þegar hafin vinna við að sameina alla starfsemi fyrirtækisins alþjóðlega undir Allergan nafninu að undanskyldu samheitalyfjasviði fyrirtækisins í Bandaríkjunum og Kanada sem mun starfa óbreytt undir nafni Actavis.

Nafnabreytingin og nýtt merki, sem móðurfélagið hefur tekið upp frá og með deginum í dag, marka nýtt upphaf fyrir sameinað fyrirtæki og endurspegla þá miklu breytingu sem hefur orðið á fyrirtækinu undanfarin misseri. Merkið táknar orku, hreyfingu, vöxt, hugmyndir, fjölbreytileika og þróun. Þetta undirstrikar sérstöðu fyrirtækisins sem ný tegund alþjóðlegs lyfjafyrirtækis sem hefur það að markmiði að fara nýjar leiðir og hrinda í framkvæmd nýjum hugmyndum innan heilbrigðisgeirans til að mæta þörfum viðskiptavina, lækna, sjúklinga og neytenda út um allan heim.
 
Allergan – ný tegund fyrirtækis innan lyfjageirans

Allergan plc (NYSE: AGN) er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu frumlyfja, samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Dublin á Írlandi.

Á sviði frumlyfja er Allergan með breitt vöruúrval og sérhæfir sig m.a. í meðferðum við tauga-, augn-, meltingar-, þvagfæra-, hjarta- og smitsjúkdómum, ásamt því að vera leiðandi í húð- og lýtalækningum sem og heilsu kvenna. Þá er samheitalyfjasvið Allergan það þriðja stærsta í heimi og er fyrirtækið stöðugt að auka aðgengi að hágæða samheitalyfjum á hagkvæmu verði út um allan heim.

Allergan er leiðandi í lyfjaiðnaðinum þegar kemur að rannsóknum og þróun og er með eitt breiðasta úrval lyfja í þróun innan lyfjageirans og leiðandi í skráningum samheitalyfja á alþjóðavísu. Fyrirtækið er með sölustarfsemi í 100 löndum og leggur áherslu á að vinna með heilbrigðisstarfsfólki sem og sjúklingum að því markmiði að efla heilsu og lífsgæði fólks út um allan heim.

Fjölbreytt alþjóðleg starfsemi á mörgum sviðum á Íslandi

Hjá starfsstöð Actavis á Íslandi starfa um 700 manns hjá öflugum alþjóðlegum einingum, m.a. á sviði lyfjaþróunar, alþjóðlegra lyfjaskráninga, framleiðslu, gæðamála og fjármála. Einnig starfar á Íslandi hópur sérfræðinga á sviði einkaleyfa, öflug sölu- og markaðsdeild sem sinnir Íslandsmarkaði og ýmis stoðsvið. Í Hafnarfirði eru einnig höfuðstöðvar Medis, dótturfélags Actavis, sem selur lyf og lyfjahugvit til annarra lyfjafyrirtækja.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×