Körfubolti

Danski landsliðsþjálfarinn tekur við liði Tindastóls | Martin hættur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pieti Poikola sést hér stjórna danska landsliðinu á móti Íslandi.
Pieti Poikola sést hér stjórna danska landsliðinu á móti Íslandi. Vísir/Daníel
Tindastóll verður með nýjan þjálfara í Dominos-deild karla í körfubolta næsta vetur en í stað Spánverjans Israel Martín mun Finninn Pieti Poikola þjálfa lið Stólanna næsta vetur. Þetta kemur fram á heimasíðu Tindastóls.

Israel Martín gerði frábæra hluti með Tindastólsliðið sem var nýliði í Dominos-deildinni en liðið fór alla leið í lokaúrslitin á móti KR. Martín bauðst annað spennandi verkefni utan landsteinanna en Stólarnir voru fljótir til að finna eftirmann hans.

Pieti, er margverðlaunaður þjálfari frá Finnlandi, og hann hefur mun þjálfa áfram danska landsliðið á sama tíma og hann stýrir málum á Króknum.

Pieti Poikola er fæddur í Oulu í Finnlandi árið 1977 og er því 38 ára gamall. Hann er verkfræðingur að mennt en hefur starfað sem körfuknattleiksþjálfari atvinnumanna frá árinu 2008. Hann var leikmaður í finnsku fyrstu deildinni árin 1992-1996 en hefur þjálfað nær óslitið síðan 1997.

Poikola hefur þjálfað efstu deildar lið Tampereen Pyrintö í Finnlandi sex tímabil frá árinu 2008 og á þeim tíma þrívegis gert lið sitt að finnskum meisturum. Poikola tók við karlalandsliði Danmerkur árið 2013 og mun þjálfa liðið áfram.

Poikola mun þjálfa meistaraflokk Tindastóls auk þess að stýra unglinga- og drengjaflokkum og kenna við körfuboltaakademíu FNV á Sauðárkróki. Samningur Körfuknattleiksdeildar Tindastóls við Poikola gildir til eins árs með möguleika á framlengingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×