Viðskipti innlent

Hreiðari heitt í hamsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
"Eins og ákæruvaldið haldi að ég hafi sagt satt um Al Thani og Kevin Stanford en svo ákveðið að ljúga um þetta,” sagði reiður Hreiðar Már Sigurðsson.
"Eins og ákæruvaldið haldi að ég hafi sagt satt um Al Thani og Kevin Stanford en svo ákveðið að ljúga um þetta,” sagði reiður Hreiðar Már Sigurðsson. Vísir/GVA
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, kannast ekki við að honum hafi verið haldið vel upplýstum um viðskipti bankans með bréf í sjálfum sér.

Þetta kom fram við skýrslutöku yfir honum í morgun en Hreiðar er einn af ákærðu í umfangsmiklu markaðsmisnotkunarmáli sem sérstakur saksóknari hefur höfðað gegn níu fyrrum stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings.

Ekki aðili að neinu símtali

Hingað til hefur fjöldi símtala verið spilaður í réttarhöldunum og sakborningar spurðir út úr þeim. Það var ekki tilfellið í morgun þar sem Hreiðar Már var ekki aðili að neinum símtalanna og í þeim tilfellum sem hann var spurður út í einstaka ummæli í tilteknum símtölum sagðist hann ekkert geta sagt um þau.

Þá voru bornir undir hann tölvupóstar sem Birnir Sær Björnsson, starfsmaður eigin viðskipta Kaupþings og einn af ákærðu í málinu, sendi til æðstu stjórnenda Kaupþings nánast á hverjum degi frá 11. febrúar 2008 og þar til bankinn féll í október sama ár.

Í póstunum er að finna yfirlit yfir viðskipti hvers dags, hlutfall viðskipta með eigin bréf í heildarviðskiptum og markaðsvirði þeirra. Aðspurður hver hefði haft frumkvæði að því að slíkir póstar voru sendir sagðist Hreiðar ekki muna það og bætti við hlæjandi:

„Ég er bara þakklátur fyrir hversu mikla tröllatrú þú hefur á minni mínu.”

Hreiðar sagðist svo kannast við að hafa fengið pósta í líkingu við þá sem saksóknari bar undir hann en hann gat ekki staðfest að hafa lesið þá alla.

Misjafnt í mismunandi skipti

Þegar Björn Þorvaldsson, saksóknari, hafði lokið við að spyrja Hreiðar út í viðskipti bankans með bréf í sjálfum sér fór hann í næsta lið ákærunnar sem snýr að kaupum eignarhaldsfélagsins Holt á bréfum í Kaupþingi. Voru kaupin fjármögnuð með láni frá bankanum sjálfum sem tók veð í bréfunum.

Saksóknari vill meina að kaupin hafi byggt á blekkingum og sýndarmennsku og hafi verið líklegt til þess að gefa eftirspurn eftir hlutabréfum í Kaupþingi ranglega og misvísandi til kynna.

Reyndi Björn ítrekað að spyrja Hreiðar út í hvernig ákvarðanir hafi verið teknar almennt um sölu á bréfum í bankanum og lánveitingar vegna þeirra.

„Þetta var bara misjafnt í mismunandi skipti. Þetta var ekkert almennt. Það er enn einn misskilningurinn í þessari ákæru sem ég vil kalla skáldskap,” sagði Hreiðar.

Aðspurður hvort að eigin viðskipti gátu tekið ákvörðun um að selja sagði hann svo hafa verið en hann gæti ekki sagt um hvort það hafi verið almennt þannig í stórum viðskiptum með hlutabréf í bankanum. Það yrði að fara yfir hver viðskipti fyrir sig.

Hreiðar bætti svo við: „Ég kom ekkert nálægt sölunni til Holt. Það eina sem þurfti að ákveða var magn og hversu marga hluti. Ég þurfti ekkert að koma að þessari sölu og ég gerði það ekki. Það bera því líka allir við í skýrslutöku hjá lögreglu að ég hafi ekkert komið að þessu en samt er ég ákærður. Og ég bara sit hérna... hvers konar fáránleiki er þetta?”

Heitt í hamsi

Það er óhætt að segja að Hreiðari hafi verið orðið nokkuð heitt í hamsi þegar hér var komið við sögu. Stuttu síðar hafði hann þetta að segja um aðkomu sína að viðskiptum Holt og lánveitingum til félagsins, og lá nokkuð hátt rómur:

„Ég vil bara benda ykkur á það dómarar að þegar ég fer í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknarar 2009 og 2010 og er spurður um aðkomu mína að viðskiptum Al Thani þá segi ég allt. Svo er ég spurður um aðkomu mína að viðskiptum Kevin Stanford og segi allt. Síðan er ég spurður um Holt og ég segist ekkert kannast við þetta, ég veit þetta ekki. Nei, þá er eins og ákæruvaldið haldi að ég hafi sagt satt um Al Thani og Kevin Stanford en svo ákveðið að ljúga um þetta.”

Hreiðar sagði svo ekkert í gögnum málsins benda til þess að hann hafi komið eitthvað að viðskiptum Holt. Hann sæi engar sannanir fyrir því.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×